Karl-Werner Schulte kom færandi hendi

Ásthildur Sturludóttir þakkar Karl-Werner Schulte þessa höfðinglegu gjöf til sveitarfélagsins.
Ásthildur Sturludóttir þakkar Karl-Werner Schulte þessa höfðinglegu gjöf til sveitarfélagsins.

Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, veitti í gær viðtöku fyrir hönd Akureyrarbæjar 50 einstökum Íslandskortum sem bætast við glæsilegt safn fágætra korta sem hjónin dr. Karl-Werner Schulte og eiginkona hans dr. Gisela Daxbök-Schulte færðu Akureyrarbæ árið 2014. Gisela lést árið 2019 og hvílir í kirkjugarðinum í Lögmannshlíð á Akureyri.

Íslandskortasafn Schulte telur nú 143 kort þar sem Ísland er annað hvort myndefnið eða hluti kortsins. Kortin eru gerð af helstu kortagerðarmönnum fyrri alda og eru frá 1523 til 1848. Kortin endurspegla vísindalega þróun og ímynd landsins í gegnum aldirnar. Stór hluti Íslandskortasafns Schulte er einstakur og hvorki að finna í safni Landsbókasafnsins né annars staðar í heiminum.

Af þessu tilefni var einnig opnuð heimasíða um kortasafnið þar sem dregin er fram sérstaða kortanna og áhugaverð saga kortagerðarmannanna. Heimasíðan er sem stendur aðeins á ensku en verður þýdd yfir á íslensku og þýsku á næstu vikum. Þá vinnur starfsfólk Minjasafnsins við að mynda þau kort sem bættust við safnið með þessari höfðinglegu gjöf. Slóðin á heimasíðuna er https://schulte-collection.eu/.

Minjasafnið á Akureyri sýnir hluta kortasafnsins árlega og er þetta eina sýningin á landinu þar sem hægt er að líta þessi sögulegu kort.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan