KA bikarmeistarar í handbolta

KA vann stórsigur í úrslitum bikarkeppninnar í handbolta gegn Fram á laugardag með 31 marki gegn 23. Á heimasíðu félagsins segir orðrétt: "Það var mikil spenna í Laugardalshöll í gær þegar KA menn léku í úrslitum bikarkeppninnar gegn Fram. Það var jafnt á með liðununum fyrstu 10 mínúturnar en KA menn náðu síðan yfirhöndinni í leiknum og leiddu í leikhléi 12-10. Í síðari hálfleik stungu okkar menn Frammara gjörsamlega af og unnu stórsigur 31-23. 

Arnór Atlason átti enn einn stórleikinn í vetur og skoraði 13 mörk. Frammarar höfðu sagt fyrir leikinn að þeir ætluðu að stöðva drenginn en það var alveg sama hvað þeir reyndu þeim varð ekkert ágengt í þeim efnum. Andrius Stelmokas stóð svo sannarlega fyrir sínu og skoraði 7 mörk. Sævar Árnason kom einnig mjög sterkur inn í síðari hálfleik sem og Ingólfur Axelsson. Fyrirliðinn Jónatan Magnússon stjórnaði liðinu af stakri prýði og átti góðan leik. Hafþór Einarsson átti frábæran leik í markinu, varði 23 skot og átti stóran þátt í sigrinum. 

KA menn voru gríðarlega vel stemmdir í leiknum og greinilegt að þjálfarinn hafði undirbúið leikmenn sína vel fyrir átökin. Liðsheildin var frábær og greinilegt frá fyrstu mínútu hversu hungraðir leikmenn okkar voru í að sigra. Leikmenn Fram reyndu margt til að komast inn í leikinn en okkar menn áttu alltaf svar við öllum þeirra aðgerðum. Sigurinn var sanngjarn og leikmenn KA miklum mun betri en leikmenn Fram á öllum sviðum. Fyrst og síðast var það auðvitað liðsheildin sem skóp sigurinn og vonandi að menn taki eins á því í næstu leikjum í úrvalsdeildinni.


Fjölmargir Akureyringar mættu í höllina til að styðja við bakið á strákunum. Enn og aftur sýndu gulir og glaðir hvers þeir eru megnugir og eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna. Fyrir hönd félagsins vil ég þakka þeim fyrir stuðninginn. Þið voruð frábær. 
Mörk KA: Arnór 13, Andrius 7, Ingólfur 3, Sævar 3, Einar Logi 3, Árni Björn 1, Jónatan 1. Til hamingju með bikarinn KA menn."

Frétt af www.ka-sport.is

KA bikarmeistarar 2004

Og KA-menn gera það ekki endasleppt í handboltanum. Önnur frétt og ekki síðri af heimasíðu þeirra er þessi:

"Strákarnir í 2. flokki urðu í gærkvöld bikarmeistarar, þegar þeir lögðu Framara í úrslitaleik í Laugardalshöll. Leiknum lauk með sigri okkar manna 24-32 eftir að staðan hafð verið 11-18 i hálfleik KA í vil. Flokknum hefur gengið mjög vel í vetur, þeir eru efstir í A riðli Íslandsmótsins og líklegir sigurvegarar í riðli sínum. Hópurinn er firnasterkur. Í liðinu er að finna leikmenn eins og Einar Loga, Arnór, Árna Björn, Magnús Stef., Ingólf Axelss., og Stefán Guðnason markvörð en hann var einmitt kjörinn maður leiksins í kvöld. Stefán varði mjög vel og að sögn Reynis Stefánssonar þjálfara þá var sigurinn í raun og veru aldrei í hættu. KA leiddi allan leikinn og áttu Framarar litla möguleika gegn mjög sterkum KA mönnum.


Frábært að ná að klára helgina með þessum sigri. Það hefur án efa verið erfitt fyrir okkar stráka sem í gær hömpuðu SS-bikarnum að gíra sig upp í annan leik svo skömmu eftir góðan sigur. En þeir eru alvöru menn og sleppa ekki titli þegar hann er í boði."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan