Jólamarkaður undirbúinn í Skógarlundi

Þessa dagana er mikið um að vera í Skógarlundi við að undirbúa glæsilegan jólamarkað sem verður haldinn á tveimur stöðum í ár. Ýmiss konar listaverk, unnin af notendum hæfingarstöðvarinnar, verða til sýnis og sölu.

Fjölbreytt starf er í Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar fyrir fatlað fólk, allt árið um kring. Markmiðið er að draga úr áhrifum fötlunar og auka hæfni til að starfa og taka þátt í daglegu lífi.

Margra mánaða vinna

„Núna erum við sem sagt að undirbúa árlegan jólamarkað. Við vinnum til dæmis úr leir og höfum verið að gera jólatré, engla, kertastjaka og aðventukransa. Svo erum við að vinna með gler, jóladiska, skálar og vegglistaverk. Einnig búum við til kort, vinnum úr textíl og búum til kertastjaka úr steypu svo eitthvað sé nefnt. Eins höfum við unnið með teikningar notenda í Fab lab, kransa, óróa, lyklakippur og fleira,“ segir Ester Jónasdóttir, verkstjóri skapandi starfs í Skógarlundi.

Undirbúningur fyrir jólamarkaðinn hefst raunar strax eftir sumarið og hafa margir fallegir og fjölbreyttir listmunir litið dagsins ljós síðan þá. „Við erum bara að dunda okkur við þetta og erum ekki að stressa okkur. Við bara tökum þetta upp þegar þau hafa áhuga og þau ráða sjálf hvað þau vilja gera, velja formið og litina,“ segir Ester.

Um 30 manns vinnur við skapandi starf í Skógarlundi. „Það er mikil ánægja meðal notenda með að vinna úr þessum efnum. Þau hafa mjög gaman af þessu, sérstaklega þegar þau fá að gera það sem þau langar, þá lifnar yfir þeim, og áhuginn eykst,“ segir Ester.

Vilja kynna starfsemina fyrir fleirum

Líkt og undanfarin ár verður jólamarkaðurinn haldinn í Skógarlundi en þetta árið verður hann einnig á Glerártorgi. „Þetta er dálítið mikið sama fólkið sem hefur komið á markaðinn. Til þess að leyfa fleirum að skoða hvað við erum að gera höfum við ákveðið að fara líka niður á Glerártorg og kynna aðeins starfsemina í leiðinni. Ef þú ert að versla á Glerártorgi er um að gera að koma við á markaðnum,“ segir Ester.

Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og er tilvalið að kaupa listmuni í jólapakka. Allur ágóði verður notaður til að efla skapandi starf í Skógarlundi.

Jólamarkaður á Glerártorgi verður haldinn þriðjudaginn 19. nóvember kl. 15-18 og í Skógarlundi laugardaginn 23. nóvember kl. 10-16.

Hér er viðburðurinn á Facebook.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan