Jákvætt skref í fjármögnun á málaflokki fatlaðra

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Ríki og sveitarfélög hafa gert með sér samkomulag um að aukið fé renni til málaflokks fatlaðra sem hefur um langt árabil verið mjög vanfjármagnaður af ríksins hálfu en það hefur bitnað illa á rekstri stærstu sveitarfélaga landsins. Samkomulagið felur í sér að útsvar verður hækkað um 0,22% en tekjuskattur lækkaður um samsvarandi hlutfall. Þessi breyting mun því ekki hafa nein áhrif á hinn almenna skattgreiðanda því skatthlutfallið, sem samanstendur af útsvari og tekjuskatti, verður hið sama eftir sem áður. Hins vegar gerir þetta ríkinu kleift að láta meiri fjármuni renna til reksturs á málaflokki fatlaðra í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Samkomulagið var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í gær og verður útsvar árið 2023 því 14,74%.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir að þetta sé fyrst og fremst jákvætt skref í fjármögnun á málaflokki fatlaðra. „Það er engum blöðum um það að fletta að umtalsvert fjármagn frá ríkinu hefur vantað til að standa undir þjónustu við fatlaða og auðvitað viljum við gera sem allra best á þessu sviði. Ég tel að hér sé stigið afar jákvætt skref í fjármögnun málaflokks fatlaðra án þess þó að það hafi nokkur áhrif á íbúa sveitarfélagsins þar sem skatthlutfall helst óbreytt, útsvarið hækkar en tekjuskattur lækkar. Þetta er fyrst og fremst tilfærsla á fjármunum til að styrkja rekstur málaflokksins í gegnum Jöfnunarsjóðinn.“

Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir orðrétt:

„Í mörgum sveitarfélögum er rekstrarafkoma í ágætu jafnvægi eða nærri því þótt halli teljist vera á þessum málaflokki þegar miðað er einvörðungu við þær tekjur sem honum voru eyrnamerktar upphaflega og litið er fram hjá aukningu annarra tekna. Engu að síður er útgjaldavöxtur málaflokksins fyrir sveitarstjórnarstigið í heild orðinn það umfangsmikill að það kynni að raska þeim megin markmiðum um þróun afkomu og skulda sem gert var samkomulag um í aðdraganda gildandi fjármálaáætlunar fyrir árin 2023-2027. Í því ljósi hafa stjórnvöld fallist á það með sveitarfélögum að gera breytingu á endanlega samkomulaginu frá árinu 2015 og flytja 5 ma.kr. frá ríki til sveitarfélaga á árinu 2023 í því skyni að bæta rekstrarafkomu sveitarfélaga og gera þeim betur kleift að standa við afkomu- og skuldamarkmið sín. Þessi tilfærsla fjármuna er framkvæmd með því móti að útsvarsprósenta sveitarfélaga og hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarinu hækkar um 0,22% en tekjuskattsprósentur ríkisins lækka í sama mæli.“ (sjá nánar á vef Stjórnarráðsins).

Sjá einnig frétt á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samkomulag um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk (pdf).

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan