Hjólar í vinnuna allan ársins hring

Eggert Þór Óskarsson
Eggert Þór Óskarsson

Bíllausi dagurinn er í dag, sem er jafnframt hápunktur Samgönguvikunnar. Akureyringar og íbúar margra annarra borga og bæja í heiminum hafa því verið hvattir til að nota umhverfisvænni og heilsusamlegri samgöngumáta en einkabílinn.

Margir starfsmenn Akureyrarbæjar eru til fyrirmyndar hvað þetta varðar og er Eggert Þór Óskarsson, forstöðumaður fjárreiðna, einn þeirra. „Ég hef hjólað eða gengið í vinnuna frá því ég hóf störf hjá Akureyrarbæ 2004. Notaði mikið strætó á veturna en undanfarin 7-8 ár hef ég hjólað allan ársins hring. Það kemur fyrir að ég fari á bíl ef ég þarf eitthvað lengra til eftir vinnu, en yfirleitt hjóla ég alla virka daga,“ segir Eggert.

„Það er lítið mál að hjóla í vinnuna þar sem ég bý efst í Naustahverfi og vinn í Ráðhúsinu (mest niður í móti) en auðvitað er aðeins meira mál að hjóla uppeftir. Svo hefur vindáttin áhrif líka þar sem ég er enn að hjóla fyrir eigin afli, ekki á rafhjóli. Ég er líklega um sjö mínútur á leið í vinnu og korter heim ef ég fer stystu leið. Á veturna vel ég oft lengri leið sem er betur mokuð og þá lengist tíminn aðeins,“ segir Eggert.

„Engin afsökun lengur“

Hvers vegna velur þú aðra kosti en einkabílinn? „Aðalástæðan hjá mér er að fá þessa hreyfingu á hverjum degi en einnig hafa umhverfissjónarmið áhrif,“ segir Eggert og bætir við að það sé einnig stór kostur að þurfa bara einn bíl á heimilið „sem er bæði umhverfisvænt og sparnaður fyrir heimilisbókhaldið.“

Hvað þarf fólk að hafa í huga sem vill taka upp þennan lífsstíl? „Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri, vera í áberandi fatnaði með endurskini og nota hjálm. Nauðsynlegt er að hafa góð bretti á hjólinu svo bleyta ýrist ekki yfir mann frá dekkjum. Ljós og bjalla eru auðvitað skyldubúnaður og ef ætlunin er að hjóla á veturna er nauðsynlegt að vera á nagladekkjum.“

Hann segir að almennt sé þetta minna mál en fólk heldur og hvetur fleiri til að hjóla reglulega í vinnuna. „Nú þegar rafhjólin hafa nánast tekið yfir þá er í raun engin afsökun lengur. Nánast hver sem er getur hjólað, brekkur og vindur hafa nær engin áhrif ef notað er rafhjól. Enda er ekki spurning að fjöldi þeirra sem velja að hjóla, eða nota rafskútur, er stöðugt að aukast,“ segir Eggert.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan