Hátíðarvika í Glerárskóla

Það viðraði ekki vel fyrir skrúðgöngu á fimmtudaginn en starfsfólk og nemendur létu það ekkert á sig…
Það viðraði ekki vel fyrir skrúðgöngu á fimmtudaginn en starfsfólk og nemendur létu það ekkert á sig fá.

Alla síðustu viku voru hátíðarhöld í Glerárskóla til að fagna 110 ára afmæli skóla í Þorpinu. Það var árið 1908 sem stofnaður var skóli í Bótinni en árið 1938 var hann fluttur í Árholt. Árið 1972 var síðan núverandi húsnæði tekið í notkun, A-álma fyrst, og árið 1996 var síðasta álman, C-álma tekin í notkun.

Mikið hefur verið um að vera þar sem nemendur og starfsfólk Glerárskóla hafa unnið að ýmsum skemmtilegum verkefnum tengdum afmælinu og 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Allir dagar hafa hafist á söngsal þar sem m.a. nýr Glerárskólasöngur hefur verið kyrjaður ásamt fleiri lögum. Síðan hafa verið útileikir, íþróttamót þar sem nemendum úr Oddeyrarskóla var boðið, uppsett kaffihús í skólanum, starfandi útvarpsstöð og margt fleira. Á fimmtudaginn var síðan farið í skrúðgöngu með fánum og öllu sem tilheyrir skrúðgöngu, Glerárskólafáninn dreginn að húni, og lauk með veisluborðum á göngum skólans með góðgæti sem nemendur höfðu bakað í vikunni. Síðasta daginn, föstudaginn 30. nóvember, var afmælishátíðinni lokað með hinni árlegu Glerárvision, söng- og dansskemmtun, sem var í sannkölluðum hátíðarbúning í tilefni afmælisins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan