Handverkshátíð og Fiskidagur

Á fiskideginum mikla á Dalvík
Á fiskideginum mikla á Dalvík

Mikið verður um að vera í nágrenni Akureyrar um helgina en þá verður haldin Handverkshátíð á Hrafnagili og Fiskidagurinn mikli á Dalvík, auk þess sem Pæjumótið í fótbolta fer fram á Siglufirði.  Það má því búast við fjölda gesta á svæðinu.

Handverkshátíðin í Eyjafjarðarsveit (13 km sunnan Akureyrar) er haldin í 25.skiptið og verður sett kl. 12 í dag, fimmtudaginn 10. ágúst. Hátíðin stendur fram á sunnudag og er opin frá kl. 12-19 nema til kl. 18 á sunnudaginn. Sýn­ing­in er fjöl­breytt líkt og und­an­far­in ár með rúmlega 90 sýn­endum af öllu land­inu sem selja skart, fatnað, fylgi­hluti, tex­tíl, kera­mik og gler auk mat­væl­a. Þema Handverkshátíðar 2017 er tré og af því tilefni er boðið upp á sænska farandssýningu sem ber nafnið UR BJÖRK eða Úr birki. Að sýningunni standa 22 handverksmenn og –konur sem skiptu á milli sín heilu birkitré og fengu það hlutverk að nýta allt efnið.  Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.

Fiskidagurinn mikli er haldin hátíðlegur í sextánda sinn í Dalvíkurbyggð. Segja má að dagskráin skiptist í þrennt: á laugardaginn er dagskrá á sviði og stemmning og matarsmökkun á útisvæðinu og svo almenn dagskrá hér og þar um bæinn alla þessa vikuna. Meðal annars bjóða íbúar byggðalagsins gestum og gangandi upp á fiskisúpu í heimahúsum og görðum á föstudagskvöldið. Markmið hátíðarinnar er að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu Fiskidagsins mikla.

Fótboltakeppni á Pæjumótinu hefst á morgun föstudag og stendur til laugardags, sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Knattspyrnufélags Fjallabyggðar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan