Glæðum Grímsey á tímamótum

Halla Björk Reynisdóttir ávarpar fundinn. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Halla Björk Reynisdóttir ávarpar fundinn. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Lokafundur í byggðaþróunarverkefninu Glæðum Grímsey var haldinn með íbúum eyjarinnar í síðustu viku. Þar með var komið að þeim tímamótum að Byggðastofnun dró sig formlega í hlé úr verkefninu.

Á fundinum var farið yfir það sem hefur áunnist frá því verkefnið hófst árið 2015 og er lokaskýrsla um það í smíðum um þessar mundir. Fram kom að bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að María Helena Tryggvadóttir verkefnastjóri ferðamála hjá Akureyrarbæ verði tengiliður Grímseyinga við stjórnsýsluna vegna málefna sem þá varða og Anna Lind Björnsdóttir verður tengiliður frá Samtökum sveitarfélaga & atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Þær munu aðstoða íbúa við að fylgja framfaraverkefnum eftir.

Fólki var skipt upp í umræðuhópa á fundinum til að fjalla um viðhorf íbúa til verkefnisins, hvað hefði gengið vel, hvað hefði mátt betur fara og ekki síst hvernig íbúar sjá sjálfir fyrir sér að fylgja uppbyggingu í Grímsey eftir. Skýrt kom fram í niðurstöðum umræðuhópanna að brýnustu mál eyjarskeggja eru aðgangur að sértæku aflamarki og byggðakvóta og að innviðir verði treystir. Þar eru samgöngur og grunnatvinnuvegurinn sjávarútvegur brýnustu málefnin og jafnframt forsenda byggðar í eynni.

Í lok fundar þakkaði Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar og verkefnastjórnar Glæðum Grímsey, fundargestum fyrir góðan fund, íbúum fyrir virka þátttöku.

Undirbúningur verkefnisins Glæðum Grímsey hófst á árinu 2015 og íbúaþing var haldið í apríl 2016. Verkefnið hefur verið framlengt tvisvar sinnum. Með sanni má segja að Grímseyingar hafi tekið höndum saman á verkefnistímanum og unnið að mörgum framfaramálum í eynni. Í upphafi verkefnis, á íbúaþingi, var sett fram verkefnisáætlun ásamt framtíðarsýn sem hefur verið leiðarljósið á framkvæmdatímanum. Mörg frumkvæðisverkefni hafa verið styrkt á tímabilinu úr Frumkvæðissjóði Glæðum Grímsey. Samtals var um 55 milljónum veitt til 48 verkefna. Auk þeirra verkefna hafa verkefnisstjórar aðstoðað eyjarskeggja við að sækja um styrki til ýmissa uppbyggingarverkefna í aðra sjóði. Þrír verkefnisstjórar hafa haldið utan um verkefnið á tímabilinu, þær Helga Íris Ingólfsdóttir, Karen Nótt Halldórsdóttir og nú síðast, undanfarið eitt og hálft ár, Arna Björg Bjarnadóttir.

Meðfylgjandi myndir tók María Helena Tryggvadóttir á fundinum og einnig úti við daginn sem fundurinn var haldinn, þriðjudaginn 14. febrúar sl.

Byggt á frétt á heimasíðu Byggðastofnunar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan