Friðrik Ómar og Eik í beinu streymi

Í kvöld fara fram þriðju tónleikarnir í tónleikaröðinni Í HOFI & Heim þegar Friðrik Ómar og Eik Haraldsdóttir stíga á svið Hamraborgar í Menningarhúsinu Hofi.

Fjöldi gesta í sal takmarkast við gildandi sóttvarnarreglur. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana en panta þarf miða á mak.is. Tónleikunum verður einnig streymt beint á mak.is svo áhorfendur geta einnig notið tónleikanna í huggulegheitunum í sófanum heima.

Á tónleikaröðinni, sem styrkt er af Menningarsjóði Akureyrarbæjar, er kynslóðunum teflt saman. Ungt listafólk frá Akureyri kemur fram með sér reyndara listafólki svo úr verður nýr og forvitnilegur vinkill um leið og kunnuglegheitin eru til staðar. Listafólkið mun flytja bæði þekkt lög og sín eigin svo allir fái að njóta sín.

Á þessum tónleikum munu Friðrik Ómar og Eik koma saman auk þess sem Hallgrímur Jónas Ómarsson spilar á gítar. Söngvarann Friðrik Ómar þekkja allir landsmenn en Eik er 18 ára Akureyringur sem hefur sungið opinberlega frá 10 ára aldri. Hún er að klára framhaldspróf í rhytmískum söng og jafnframt stúdentspróf af tónlistarbraut frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún var jólastjarna Björgvins árið 2013 og hefur meðal annars tekið þátt í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Vorið vaknar og Pílu pínu. Eik er að gefa út sína fyrstu plötu í janúar með vini sínum.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan