Framkvæmdir við Rangárvelli vegna Hólasandslínu 3

Framkvæmdir Landsnets við jarðstreng Hólasandslínu 3 hefjast við Rangárvelli á næstu dögum. Hlíðarfjallsvegur verður þveraður og þarf því að loka honum meðan á framkvæmdum stendur, en opnuð verður hjáleið um lóð Terra. 

Vegfarendur eru beðnir um að gæta að umferðaröryggi og taka tillit til framkvæmda Landsnets og starfsemi Terra með því að aka sérstaklega varlega þar um. Undirbúningur hefst í byrjun næstu viku en áætlað er að þverun og lokun Hlíðarfjallsvegar standi í um viku, frá og með 10. desember.

Framkvæmdirnar halda síðan áfram næstu vikurnar norðan vegar og við tengivirkið og geta orðið einhverjar tafir við Hlíðarfjallsveginn og aðkeyrslu að Rangárvöllum á framkvæmdatímanum.

Hólasandslína 3 er ný 220kV raflína milli Akureyrar og Hólasands. Markmiðið er einkum að bæta orkunýtingu, auka flutningsgetu og tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. Í Eyjafirði verður línan lögð sem jarðstrengur en loftlína frá vesturhlíð Vaðlaheiðar að Hólasandi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan