Fjölsóttur fundur um búsetu fatlaðs fólks

Karólína og Laufey stjórnuðu fundinum
Karólína og Laufey stjórnuðu fundinum

Búsetusvið Akureyrarbæjar boðaði til kynningarfundar í gær um búsetumál fatlaðs fólks. Vel var mætt og sköpuðust fjörlegar og áhugaverðar umræður um þennan mikilvæga málaflokk.

Markmið fundarins var einkum að upplýsa aðstandendur og aðra áhugasama um helstu búsetuúrræði og rétt fatlaðs fólks til búsetu. Enn fremur að útskýra stöðu og þróun mála á Akureyri. 

Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri búsetusviðs, og Karólína Gunnarsdóttir, starfandi sviðsstjóri fjölskyldusviðs, fóru meðal annars yfir sögu málaflokksins sem hefur einkennst af auknum kröfum og áherslu á bætt lífsgæði fatlaðs fólks, auk þess sem rætt var um nýlegar breytingar á lögum og reglum. Stefna stjórnvalda er að leggja niður herbergjasambýli og er sveitarfélögum gert að bjóða upp á íbúðir í búsetukjörnum eða almennar leiguíbúðir með þjónustu. Samkvæmt reglugerð skal miða við að íbúðir í sama kjarna séu ekki fleiri en sex.

Akureyrarbær rekur í dag sjö búsetukjarna fyrir fatlað fólk með þroskaskerðingar og þrjá búsetukjarna fyrir geðfatlað fólk, þrjú herbergjasambýli og þjónustar eitt í viðbót. Auk sértækra húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk er boðið upp á skammtímaþjónustu, heimaþjónustu, félagslega liðveislu og ráðgjafarþjónustu. Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er að ryðja sér til rúms og hafa níu samningar verið gerðir um slíka þjónustu á Akureyri.

Þétt setinn fundur

Á fundinum var nokkuð rætt um bið eftir íbúð í búsetukjarna og leiðir til að bregðast við. Laufey benti á að eftir efnahagshrunið hafi reynst erfitt að mæta þörf fyrir nýjar íbúðir. Framkvæmdir við nýjan sex íbúða búsetukjarna í Klettaborg eru þó í fullum gangi og á næstu árum er áætlað að byggja annan sambærilegan. Þá er stefnt að því að breyta sambýlinu í Snægili í litlar íbúðir, auk þess að stækka sambýlið í Hafnarstræti 16 og breyta í íbúðir.

Áhugavert var að heyra reynslusögur aðstandenda á fundinum. Ekki mátti skilja annað en búsetuþjónustan hefði haft verulega jákvæð áhrif á líf þeirra sem hennar njóta, en ekki síður aðstandenda. Fundarfólk tók virkan þátt og sköpuðust gagnlegar umræður. 

Svandís Ebba Stefánsdóttir segir frá reynslu sinni sem aðstandanda

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan