Fjölmenni á fundi um skipulagsmál

Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs, flutti erindi fyrir fullu húsi.
Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs, flutti erindi fyrir fullu húsi.

Mikill fjöldi var samankominn í menningarhúsinu Hofi í gær þar sem haldinn var kynningarfundur um skipulagsmál á Oddeyri. 

Fundurinn var haldinn í tengslum við tillögu að skipulagsbreytingum á reit sem afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri. Bæjarstjórn samþykkti nýverið skipulagslýsingu vegna aðalskipulagsbreytingar, sem er fyrsta skrefið af mörgum. 

Markmið fundarins var fyrst og fremst að kynna skipulagslýsinguna, hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu og svara spurningum íbúa á fyrstu stigum. Málið hefur vakið nokkra athygli í fjölmiðlum og ljóst að margir hafa áhuga á því, enda var fullt út úr dyrum á fundinum í gær. 

Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, fjallaði um skipulagsferlið og hvað er framundan, meðal annars hvernig íbúar og aðrir hagsmunaaðilar geta komið að málinu. Þar á eftir kynnti Orri Árnason, arkitekt hjá Zeppelin arkitektum, hugmyndir að uppbyggingu á þróunarreitnum umrædda. Að því loknu gafst fundarfólki tækifæri til að spyrja úr sal og komu margar áhugaverðar spurningar, meðal annars um hæð húsanna sem gætu risið þarna, áhrif á flug og áhrif á frekari uppbyggingu í grenndinni. Allt eru þetta þættir sem verða teknir til skoðunar í skipulagsferlinu framundan. 

Að formlegri dagskrá lokinni var fólk hvatt til að staldra við, skoða myndir og gögn um málið í rólegheitum, og ræða við þá Pétur og Orra. Margir nýttu sér það og sköpuðust góðar og málefnalegar umræður. 

Tillögur að uppbyggingu og ýmsar upplýsingar um skipulagslýsinguna og skipulagsferlið verða til sýnist á Glerártorgi út mánuðinn. Umsagna verður leitað hjá helstu hagsmunaaðilum og þá geta allir komið á framfæri ábendingum um skipulagslýsinguna í Ráðhúsi eða í gegnum netfangið skipulagssvid@akureyri.is innan tveggja vikna frá formlegri auglýsingu, sem var dagsett 16. október. 

 Fjöldi manns sótti fundinn í Hofi Orri Árnason arkitekt kynnti hugmyndir að uppbyggingu Pétur Ingi kynnti skipulagsferlið

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan