Fjölmennasta N1 mótið frá upphafi

Mynd af heimasíðu N1 mótsins.
Mynd af heimasíðu N1 mótsins.

Þrítugasta og þriðja N1 mótið í knattspyrnu hefst á Akureyri í dag, 3. júlí og stendur til 6. júlí. N1 mótið er einn stærsti og vinsælasti íþróttaviðburður ársins hérlendis. Rétt tæplega 2.000 ungir drengir leggja land undir fót og etja kappi í vinsælustu íþróttagrein landsins á móti sem fyrir löngu hefur skrifað nafn sitt í knattspyrnusögubækur Íslands.

Skráð lið í ár eru 204 og hafa aldrei verið fleiri. Þátttakendafjöldi er 1.960 og því ljóst að þetta er fjölmennasta og stærsta N1 mótið frá upphafi. Kópavogsliðin tvö, Breiðablik og HK, eru fjölmennust í ár en frá þeim koma 15 lið annars vegar og 12 lið hins vegar. Þá tekur eitt erlent lið þátt í mótinu en það kemur frá Bandaríkjunum og því ljóst að hróður mótsins hefur borist vel út fyrir landsteinana.

Eins og ætíð áður fylgir mikill fjöldi aðstandenda, vina og þjálfara keppendum á mótið og má því reikna með þúsundum gesta til Akureyrar í kringum mótið og minna skipuleggjendur á umburðarlyndi og þolinmæði meðan á mótinu stendur, hvort sem um er að ræða umferðarmál eða önnur mál sem óhjákvæmilega getað skapað töf. N1 er styrktaraðili mótsins en framkvæmdin er í höndum KA.

Á sama tíma fer fram í bænum Pollamót Þórs þar sem knattspyrnufólk af báðum kynjum á aldrinum frá 20 ára og upp úr etur kappi í Polladeild, Lávarðadeild, Öldungadeild, Skvísudeild, Ljónynjudeild og Dömudeild.

Keppendur, aðstandendur, vinir, makar og þjálfarar á báðum þessum mótum eru boðnir hjartanlega velkomnir til Akureyrar.

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan