Fjöldi ungmenna á starfamessu

Starfamessa grunnskólanna var haldin í fimmta sinn í gær og í þetta sinn í Háskólanum á Akureyri. Tilgangurinn er að ungmenni kynnist fjölbreyttri atvinnustarfsemi og möguleikum sem bíða þeirra í framtíðinni. Þannig er mögulegt að skapa tengingu milli náms og starfs. 

Ríflega 30 fyrirtæki og stofnanir af svæðinu tóku þátt í Starfamessu og kynntu um 70 störf með básafyrirkomulagi. Starfamessuna sóttu um 600 nemendur í 9. og 10. bekk frá öllum grunnskólum Akureyrarbæjar og úr Þingeyjarsýslum. Nemendur voru áhugasamir og fengu tækifæri til að skoða og prófa ýmislegt, auk þess sem þeir nýttu stað og stund til að spyrjast fyrir um nám og störf. Akureyrarbær átti að sjálfsögðu fulltrúa á Starfamessu, enda fjölmargir og fjölbreyttir vinnustaðir sem heyra undir sveitarfélagið. 

Fyrirmynd Starfamessu er upphaflega svipaður viðburður sem haldinn var í Reykjanesbæ á árum áður. Í undirbúningsnefnd er einn starfsmaður frá hverjum grunnskóla á Akureyri og er boðið upp á viðburðinn í samstarfi við fræðslusvið Akureyrarbæjar. Þá hefur Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og GERT (Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni) stutt við Starfamessu. 

Hér eru nokkrar myndir frá Starfamessu: 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan