Evrópuverkefni um rafræna reikninga

Akureyrarbær tekur nú þátt í verkefni á vegum Evrópusambandsins, ásamt sjö öðrum opinberum aðilum á Íslandi, um innleiðingu rafrænna reikninga undir forystu Unimaze. Verkefnið kallast ICELAND-INV18 og er markmiðið að Akureyrarbær og aðrir þátttakendur geti móttekið og sent rafræna reikninga samkvæmt evrópskum stöðlum. Stefnan er að sveitarfélög og ríkisstofnanir geti alfarið hætt móttöku pappírsreikninga. 

Upptaka rafrænna reikninga leiðir til verulegs sparnaðar fyrir fyrirtæki og stofnanir. Meðal annars lækkar kostnaður vegna prentunar, póstsendinga og geymslu reikninga. Með rafrænum reikningum þarf ekki lengur að slá inn mikið magn upplýsinga í tölvu heldur lesast upplýsingarnar vélrænt inn sem minnkar villuhættu, flýtir fyrir afgreiðslu og dregur úr mannaflaþörf. 

Akureyrarbær er þegar að móttaka og senda reikninga rafrænt samkvæmt íslenskum stöðlum en með því að taka upp evrópska staðalinn aukast möguleikar til að vinna upplýsingar rafrænt, fá ítarlegri upplýsingar á reikningum og réttari bókun. Það að opinberar stofnanir gangi á undan í að taka upp evrópskan staðal ætti að auðvelda einkafyrirtækjum að gera slíkt hið sama í kjölfarið. Þá verður hægt að nýta þekkingu sem verður til, meðal annars hjá íslenskum tölvufyrirtækjum, við þátttöku í verkefninu.

Stefnt er að því að ljúka verkefninu í september 2020. 

 

Innihald greinarinnar er alfarið á ábyrgð Akureyrarbæjar og endurspeglar ekki endilega skoðanir Evrópusambandsins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan