Erindi Ásgeirs Jóhannessonar um Akureyrarveikina

Ásgeir á málþinginu á laugardag ásamt dóttur sinni Berglindi. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Ásgeir á málþinginu á laugardag ásamt dóttur sinni Berglindi. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Síðasta laugardag var haldið í Amtsbókasafninu á Akureyri afar fróðlegt málþing um Akureyrarveikina sem geisaði í bænum veturinn 1948-1949 og í smærri faröldrum víðar um landið. Um 7% af íbúum Akureyrar veiktust og stök tilfelli komu upp um allt land. Faraldrar gengu á Þórshöfn og Patreksfirði árin 1953 og 1955. 

Nú eru rétt 75 ár frá því að sjúkdómurinn geisaði. Enn er fólk á lífi sem veiktist af sjúkdómnum og átti sumt við langtíma eftirköst að stríða. Hvað var Akureyrarveikin og hvað eiga Akureyrarveikin og Covid-19 sameiginlegt? Og hvar kemur ME sjúkdómurinn inn í þessa mynd? Þetta var meðal annars til umfjöllunar á málþinginu sem Akureyrarbær og Sjúkrahúsið á Akureyri efndu til en stefnt er að því að framvegis verði árlega haldin vísindaráðstefna á Akureyri um langtíma eftirstöðvar sýkinga.

Upptöku frá málþinginu er að finna á YouTube.

Meðal framsögumanna á málþinginu var Ásgeir Jóhannesson sem fæddur er 2. nóvember 1931 og er því á 92. aldursári. Ásgeir rifjaði upp veturinn þegar Akureyrarveikin herjaði á bæjarbúa og nemendur Menntaskólans á Akureyri. Akureyri.is fékk góðfúslegt leyfi Ásgeirs til að birta erindi hans hér að neðan.

***

Ásgeir Jóhannesson
Ávarp 4. maí 2023
Akureyrarveikin 75 ára

Það var mild veðrátta á Akureyri haustið 1948 þegar á fjórða hundrað nemendur söfnuðust saman í Menntaskólanum en íbúar bæjarins voru þá á sjöunda þúsund. Unga fólkið horfði með glampa í augum til ókominnar framtíðar, fáa eða enga grunaði hvaða storm þau fengju í fangið fáum vikum seinna.

Ég var í 4. bekk og bjó í Heimavist skólans, Norður vistum, á sömu hæð var Salurinn svokallaði. Við vorum 3 saman í herbergi, Bjarni Kristjánsson frá Hvoli í Mýrdal, varð síðar um langt árabil skólastjóri Tækniskólans í Reykjavík og Valgarð Björnsson frá Bæ á Höfðaströnd, síðar læknir í Borgarnesi og víða, varð frægur fyrir djörfung og harðfylgi er hann kleif Þórðarhöfða í Skagafirði, einn örfárra manna er það gerðu á síðustu öld. Báðir indælisdrengir sem reyndust mér afar vel þegar mest reið á þennan vetrarpart.

Haustið leið við glaum og gleði. En í byrjun nóvember hvisuðust út þær slæmu fréttir að lömunarveiki hefði borist til Akureyrar og fólk lægi á nokkrum stöðum í bænum, mismunandi veikt en þó ein ung stúlka alvarlega lömuð. Og á næstu dögum veiktust nokkrir nemendur í skólanum og heimavistinni. Var þá gripið til fyrstu varúðarráðstafana innan Menntaskólans, en það var að leggja af kennslu í leikfimi. – En nemendur kunnu illa hreyfingarleysinu og efndu til all-illvígra gangaslagsmála til að halda sér í æfingu. Ég var engin undantekning þar og eftir einn slaginn 13. nóvember fannst mér ég vera óvenjulega máttlaus og ekki alveg eins og ég átti að mér, lagðist því fyrir en druslaðist með Valgarði í bíó um kvöldið. Þetta voru fyrstu merki þess að ég væri að veikjast og daginn eftir var ég með smávegis hita. Hélt mig því við rúmið ásamt Bjarna herbergisfélaga mínum sem var slappur en við gátum vel komist sjálfir á klósett en það var niðri í kjallara og niður tvo allbratta stiga að fara. Tvær handlaugar voru hins vegar frammi á gangi á þriðju hæð skólans og þar hægt að þvo sér, eins var í kjallaranum við klósettin engir vaskar þar inni og fara varð fram á gang til að þvo sér. Þarna voru enn síður sprittbrúsar eða nokkuð sérstakt til sóttvarna.

Er þarna var komið um miðjan nóvember var fjöldi nemenda lagstur í heimavistinni og af um 60 vistmönnum talið að allt að helmingur hefði tekið veikina. Skólalæknirinn Jóhann Þorkelsson leit nú stundum við á herbergjum nemenda, sem voru misveikir en lítil lömun fylgdi veikindunum fyrstu dagana og vonaði læknirinn að hér væri ekki um langvarandi veikindi að ræða, en allir töldu þetta samt vera venjulega lömunarveiki eins og gekk öðru hvoru á þessum árum.

En 19. nóvember hringdi skólameistari Þórarinn Björnsson á sal og tilkynnti að vegna hinnar alvarlegu stöðu sem upp væri komin í skólanum yrði kennsla felld niður næstu 2 vikur eða til 3. desember. Engar aðrar sóttvarnir voru teknar upp í skólanum og sumar stelpurnar af heimavistinni notuðu fríið til að vinna við afgreiðslu í verslunum á Akureyri en jólaösin var einmitt að hefjast þar um þetta leyti. Aðrar fóru til aðstoðar á heimilum úti í bæ þar sem mikil veikindi geisuðu. Þannig reyndu nemendur og almenningur á Akureyri að styðja hvorir aðra á þessum óvenjulegu tímum. En samkomubann var líka sett á í Akureyrarbæ um svipað leyti. Mjög alvarlegt ástand var á sumum heimilum í bænum, t.d. á heimili Snorra Sigfússonar fyrrum skólastjóra, en þrjú af heimilinu voru flutt flugleiðis til meðferðar á heilsuhæli í Danmörku. Er fræg sagan er Jóhannes Snorrason flugstjóri flutti föður sinn fárveikan áleiðis til Kaupmannahafnar með millilendingu í Prestwick.

Á heimavistinni hélt lífið áfram með sívaxandi veikindum nemenda, en veikin réðst jafnt á hraustustu menn og konur og veiklaða einstaklinga. Til dæmis varð Bragi stóri sem kallaður var, Friðriksson, alvarlega veikur. Hann var annálað hraustmenni, íþróttamaður sem af bar og varð kornungur settur í sumarlögregluna á Siglufirði. Bragi varð seinna þekktur prestur í Garðabæ. Stelpurnar söknuðu hans mjög í veikindum hans, því þá fékkst vart tannkrem á Íslandi, en þær hittu hann stundum við vaskana á kvöldin og hann gaf þeim 2-3 dropa af tannkremi úr túbum sem hann fékk sendar frá föður sínum sem var í siglingum á millilandaskipum.

Kennsla hófst aftur 10. desember eftir 3ja vikna lokun skólans. Fátt var þá um góðar fréttir en það helst að Vilhelmína Þorvaldsdóttir nemandi í 5. bekk hefði sigrað í ritgerðarsamkeppni meðal menntaskólanema á Íslandi um efnið ”The world we want“ og hlotið í verðlaun 10 vikna dvöl í New York í boði amerísks blaðs, en hún veiktist síðar af Akureyrarveikinni og gat því ekki þegið boðið. Seinna lærði Vilhelmína lögreglufræði í Bandaríkjunum og varð fyrsta lögreglukonan á Íslandi. - Við Bjarni héldum okkur enn við rúmið en vorum á batavegi. Valgarð herbergisfélagi minn var í stærðfræðideildinni eins og ég og kom einn daginn til mín með stærðfræðipróf sem lagt hafði verið fyrir bekkinn. Ég settist upp í rúminu og hófst þegar handa að leysa prófdæmin. Lagði ég mig mjög fram í því og eftir tvær klukkustundir eða svo fann ég fyrir mikilli þreytu í höfðinu og í hægri handlegg, sem mér fannst allur loga um kvöldið. Leið ég miklar kvalir um nóttina og um morguninn var ég orðinn verulega lamaður í hægri hönd og hægri fæti. Skólalæknirinn kom til mín og sagði mér bara að taka aspirintöflur ef ég hefði miklar kvalir. En nú var ég orðinn ófær um að borða sjálfur. Bekkjarsystur mínar sem voru aðeins tvær í stærðfræðideildinni leystu þann vanda með því að skiptast á að mata mig, oftast í hádeginu. Þetta voru þær Jóhanna Þorgeirsdóttir frá Akranesi og Solveig Arnórsdóttir frá Þverá í Dalsmynni báðar urðu síðar kennarar. Þær komu víða við þar sem þörf var á og Jóhanna var sérstakslega heiðruð við skólaslit fyrir vasklega framgöngu í hjálparstarfi úti um allan bæ. Skúringafötu fékk ég til að hægja mér og var hún geymd undir borði í herbergi okkar og félagar mínir hlupu niður með hana á kvöldin og skvettu úr henni.

Á næstu dögum varð ég var við að Jón Hjaltalín Sigurðsson, sem var nýhættur störfum sem yfirlæknir á lyfjadeild Landspítalans og var kominn norður til að kanna hvers konar veiki væri þarna á ferðinni. Leit hann inn til mín með tvö rannsóknartæki, annars vegar hlustunarpípu og hins vegar gljáandi stálhamar sem hann barði mig með á hnjám, höndum og víðar á líkamanum til að kanna viðbrögð afltauganna. Engar blóðprufur voru teknar eða aðrar rannsóknir gerðar. En stundum skafnar iljarnar til að kanna viðbrögð tauga þar. Karl Strand sérfræðingur í tauga- og geðlækningum kom líka og skoðaði mig en hann starfaði þá í London, en hafði skotist heim til að gegna skyldu sinni sem héraðslæknir á Kópaskeri. Hann hvarf af landi brott um miðjan janúar en skilaði skýrslu um rannsóknir sínar á veikinni eigi að síður.

Og senn var liðið á desember, fjöldi vistarbúa lá í rúmum sínum og Þórarinn skólameistari gekk stofugang á herbergin og sagði að þetta væri eins og á sjúkrahúsi. Meðal þeirra sem lágu veikir á sömu hæð og ég voru tveir bræður frá Vífilsstöðum, Lárus og Sigurður synir Helga yfirlæknis þar. Voru þeir í nær daglegu í símasambandi við föður sinn og komu svo til mín og sögðu mér hvaða ráð hann hefði gefið þeim. Ég naut því góðs af að vera í eins konar fjarlækningum frá Vífisstöðum. Lárus varð síðar læknir og Sigurður sýslumaður, einstaklega greinargóðir og velviljaðir bræður.

Aldrei heyrði ég rætt um að veikir nemendur færu á sjúkrahús, en talið um miðjan desember að best væri að senda mig heim til Húsavíkur en þar bjuggu foreldrar mínir. En vegna verkja í fótum varð ekki af því. Á þessum tíma í skólanum reyndu nemendur að styðja hver annan í einsemd og erfiðleikum. Er mér sérlega minnisstætt að Baldur Vilhelmsson, seinna prófastur á Vestfjörðum, kom oft til mín og las fyrir mig draugasögur eftir Þórberg Þórðarson fram á nótt. Hann bjó úti í bæ, einn í herbergi og var stundum svo hræddur sjálfur að hann kom vansvefta eftir nóttina til mín næsta dag.

Og næst var að undirbúa jólahaldið í skólanum. Mælst var til þess að nemendur færu ekki heim til sín í jólafríinu til að draga úr útbreiðslu veikinnar. Misjafnt varð hvernig nemendur brugðust við þeim tilmælum. En þeir sem virtu þessi tilmæli reyndu að hjálpa hver öðrum við undirbúning jólahátíðarinnar, en með misjöfnum árangri. Tveir félagar mínir tóku að sér að skipta um rúmföt hjá mér. Hóf annar þeirra að taka utan af sængurfötum en hinn að setja utan um. Skyndilega voru öll hrein rúmföt þrotin, og kom í ljós að sá sem tók utan af var svo duglegur að hann tók hreinu rúmfötin jafn óðum utan af er þau höfðu verið sett þar og lá allur haugurinn af hreinum og óhreinum rúmfötum í hrúgu á gólfinu. Þannig gekk á ýmsu með undirbúning jólanna.

Eigi að síður höfðu nokkrir nemendur á vistinni tekið sig til og útbúið jólatré og skreytt inni á sal skólans. Mjög góður matur var framborinn á aðfangadagskvöld fyrir alla heimavistarnemendur og allir hjálpuðust að við að gera þessa máltíð hátíðlega, margir í fyrsta sinni fjarri heimilum sínum á aðfangadagskvöldi.

Samkvæmt bók Önnu Maríu Þórisdóttur rithöfundar, sem nefnist “Í vistinni” og er frá þessum tíma var maturinn hrísgrjónagrautur, svinakótelettur brúnaðar kartöflur, grænar baunir, sulta og rauðrófur. Á eftir bláber með þeyttum rjóma. Þetta var fínni matur en margir höfðu nokkurn tímann fengið heima hjá sér.

Nokkra stund var gengið í kringum jólatréð inni á sal og skólameistarahjónin blönduðu sér í hópinn með söng og hljóðfæraslætti, en frú Margrét var afbragðs píanóleikari. Ég gat ekki tekið þátt í þessum gleðskap, en heyrði óminn af söngnum af sal og gladdist við að heyra sungið Göngum við í kringum og fleiri algeng jólalög.

Við Bjarni herbergisfélagi minn vöknuðum snemma á jóladagsmorgun og hann náði í morgunverð fyrir mig niður í eldhús sem var í kjallara skólans. Hann var boðinn þennan dag til vinafólks á Hjalteyri en Akureyringar og nágrannar þeirra buðu mörgu skólafólki úr MA heim til sín um jólin til að létta þeim fjarveruna frá heimilum sínum og söknuð eftir eðlilegu fjölskyldulífi um jólin. Svo leið jóladagurinn, enginn leit inn til mín – enginn hádegismatur barst og klukkan að ganga 5 síðdegis ranglaði Baldur Vilhelmsson inn á herbergið til mín. Þótti honum mjög miður að ég hefði engan hádegisverð fengið eða síðdegishressingu á sjálfan jóladaginn, en tókst ekki að bæta úr því. Um kvöldið fékk ég loks eitthvað að borða og undi glaður við mitt. Eftir kvöldmat komu nokkrir félagar mínir til mín og var haft uppi ýmislegt glens og gaman en skyndilega fann ég fyrir óstjórnlegum hjartslætti. Var skólameistari sóttur í skyndi og hringdi hann í skólalækninn sem staddur var í jólaboði. Kom hann með hraði, veisluklæddur að þess tíma hætti, gaf hann út lyfseðil sem einn nemenda hljóp með í Stjörnuapótekð. Eftir nokkurn tíma hægði hjartsláttinn og mér tókst að sofna. – En frá þessari stundu fór mér stöðugt að versna, kjarkurinn og áræðið hvarf, vonleysi og áhyggjur tóku við. Varð nú ekki annað til ráða en að senda mig heim til Húsavíkur til foreldra minna með næstu skipsferð er til félli. Fyrsti möguleiki til ferðar var með strandferðaskipinu Esju sem von var á til Akureyrar 3. janúar. Ekki var vitað á þessum tíma að fólk hefði látist úr veikinni og við aðeins tveir úr þremur efstu bekkjum MA sem urðu svo veikir að hverfa þurftu frá námi í skólanum.

Í vistinni var mikið spilað um áramótin, einkum á nóttinni en sofið á daginn. Þriðja janúar var sagt að margir nenendur hefðu því aldrei séð dagsins ljós það sem af var nýju ári. Þennan dag var snjór yfir öllu á Akureyri, rennings kóf á götum og þung færð. Hringt var á lögreglubíl til að flytja mig í sjúkrakörfu um borð í Esjuna, komu tveir lögregluþjónar í fullum skrúða til athafnarinnar en skólameistari veitti tveimur nemendum frá Húsavík leyfi til að annast flutning minn til Húsavíkur með Esjunni. Voru það þeir Páll Þór Kristinsson, inspector skólans er seinna varð bæjarstjóri á Húsavík, og hinn nánasti vinur minn í skólanum Gunnar Hermannsson, afburða námsmaður, lagði síðar stund á arkitektúr í París og starfaði þar alla ævi. Hann varð landskunnur í Frakklandi er hann tók þátt í spurningakeppni í sjónvarpi þar árið 1966, maður á móti manni. Sigraði hann alla franska gáfumenn á 6 mánaða tímabili og var þá látinn hætta ósigraður. – Nú en við þessar kaldranalegu aðstæður sigldum við með Esjunni út í svartnættið og hríðina og komum til Húsavíkur næsta morgun, þar sem fjölskylda mín og vinir fögnuðu mér á bryggjunni, en fylgdarmenn mínir sneru aftur til Akureyrar með skipinu. Það var svo mikill snjór á Húsavík að bera varð mig í sjúkrarúmi af bryggjunni og heim í foreldrahús. Þar hófst margra mánaða barátta við Akureyrarveikina upp á líf og dauða sem endaði með því að ég gat klætt mig sjálfur um haustið eftir að hafa fengið sjúkraþjálfun í Reykjavík. Síðan náði ég heilsu að miklu leyti á næstu áratugum en það er önnur saga. Námi mínu við Menntaskólann á Akureyri var lokið, en ég öðlaðist farsæla ævi og ánægjulegt líf, þó leiðir skildu við mín góðu skólasystkini. Og hér sit ég nú í hópi elstu karla og kvenna er lifðu þessa tíma. En vikurnar sjö sem ég lá þarna í heimavist menntaskólans líða mér aldrei úr minni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan