Einstök Íslandskort

Karl-Werner sýnir Ásthildi kortin sem gefin voru í gær.
Karl-Werner sýnir Ásthildi kortin sem gefin voru í gær.

Það var stór stund á Minjasafninu á Akureyri í gær þegar Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, tók við 16 fornum Íslandskortum sem Karl-Werner Schulte færði Akureyrarbæ að gjöf.

Árið 2014 gáfu Karl-Werner og kona hans Gisela Schulte-Daxboek bænum 76 kort þannig að nú telur Íslandskortasafn Akureyrarbæjar 92 kort frá árunum 1500-1800 eftir helstu kortagerðarmenn Evrópu.

Tvö kortanna sem gefin voru í gær eru afar fágæt en þau sýna aðeins Ísland. Á öllum öðrum kortum gefur að líta Ísland og Norður-Evrópu. Karl-Werner og Gisela ákváðu að gefa Akureyrarbæ einnig þessi kort en áður en til þess kom, 2. mars 2019, andaðist Gisela og var duftkerið jarðsett í Lögmannshlíðarkirkjugarði 24. júlí síðastliðinn.

Kortin verða til sýnis yfir helgina á Minjasafninu á sýningunni Land fyrir stafni – Íslandskortasafn Schulte.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan