Breytingar á jarðvegslosunarsvæðinu að Jaðri

Nýtt fyrirkomulag á jarðvegslosunarsvæðinu að Jaðri tekur gildi þann 1. ágúst næstkomandi. Þá verður aðeins heimilt að nota svæðið innan opnunartíma og verður innheimt gjald fyrir losun. 

Sumaropnun 1. apríl – 15. október
Virka daga 8:00 -12:00 og 12:45-18:30
Helgar 10:00 -16:00 (1.maí - 31.ágúst)

Vetraropnun 16. október – 31. mars
Samkvæmt samkomulagi (Sími: 620-6020)

Heimilt verður að losa á tveimur skilgreindum svæðum. Annars vegar er merkt svæði fyrir jarðveg úr gatna- og húsagerð, hrossaskít, gras, greinar og annan gróður og hins vegar svæði fyrir trjáboli án greina.

Akureyrarbær og Golfklúbbur Akureyrar hafa sett umgengnisreglur fyrir svæðið sem mikilvægt er að notendur kynni sér:

• Svæðið er ætlað fyrir losun Akureyrarbæjar, verktaka og gámafyrirtækja á Akureyri.
• Einungis er heimilt að losa á skilgreindum svæðum innan opnunartíma.
• Sé losað fyrir utan merkt losunarsvæði hefur Akureyrarbær heimild til að láta færa efnið og/eða slétta úr því á kostnað viðkomandi aðila.
• Einungis skal losa þann úrgang sem heimilt er að losa á svæðinu. Öðrum úrgangi sem er losaður hér verður komið í viðeigandi farveg á kostnað losunaraðila.
• Öll minni losun skal fara fram á gámasvæðinu við Réttarhvamm

Í því skyni að bæta aðkomu að svæðinu og minnka rykmyndun í Naustahverfi var fyrr í sumar malbikaður vegur að svæðinu. Hámarkshraði er 30 km/klst.

Frá 1. ágúst verður innheimt fyrir losun á Jaðri samkvæmt gjaldskrá Akureyrarbæjar. Rétt er að ítreka að þarna er fyrst og fremst um að ræða meiriháttar losun, sem er í flestum tilvikum frá atvinnustarfsemi, en minniháttar losun frá heimilum á Akureyri fer fram á gámasvæðinu við Réttarhvamm þar sem áfram er notast við klippikortin góðu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan