Ásthildur bæjarstjóri heimsótti Hrísey í fallegu vetrarveðri

Ásthildur tekur á móti blómi frá leikskólabörnum í Hrísey.
Ásthildur tekur á móti blómi frá leikskólabörnum í Hrísey.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri heimsótti Hrísey á miðvikudag í fallegu vetrarveðri. Tilgangur heimsóknarinnar var að skoða sig um, hitta starfsfólk og nemendur í leik- og grunnskólanum, ræða við fólk í atvinnulífinu og að bjóða áhugasömum íbúum eyjarinnar upp á að ræða við sig í Hlein þar sem skrifstofa sveitarfélagsins er staðsett.

Heimsóknin hófst með viðkomu í leik- og grunnskólanum þar sem bæjarstjóri spjallaði bæði við starfsfólk og nemendur og var henni einkar vel tekið. Bæði leikskólabörnin og ungmennin í grunnskólanum voru búin að undirbúa fjölbreyttar spurningar til bæjarstjóra. Eftir heimsóknina í skólann voru málin rædd við hverfisráðið og í hádeginu var snætt í Hlein með starfsfólki skólans og nemendum.

Eftir hádegi var byrjað á að koma við í Hríseyjarbúðinni sem segja má að sé ákveðið hjarta í eynni. Íbúar kunna að meta góða þjónustu og gott vöruúrval, auk þess sem nú er hægt að kaupa pitsur þar á föstudögum. Þá gegnir Hríseyjarbúðin hlutverki sem pósthús, afhendingarstaður fyrir ÁTVR og hraðbanki. Ekki má gleyma upplýsingatöflunni í búðinni þar sem sjá má allt það helsta um ýmiskonar þjónustu og viðburði í eynni.

Áhaldahúsið var skoðað og rætt við starfsfólk sem sinnir ýmsum störfum á borð við snjómokstur og slíkt. Smíðaverkstæði fyrirtækisins Eyjasmíði sem er við hlið áhaldahússins var heimsótt og síðan lá leiðin til Björgunarsveitarinnar í Hrísey og Slökkviliðsins í Hrísey sem eru með aðstöðu við höfnina.

Rætt var við formann björgunarsveitarinnar og starfsmann slökkviliðsins. Næst lá leiðin í Hús Hákarla-Jörundar þar sem Ásthildur ræddi við fulltrúa úr Ferðamálafélagi Hríseyjar og skipstjóra Hríseyjarferjunnar.

Síðasti liður heimsóknarinnar var að bjóða áhugasömum upp á samtal við bæjarstjóra og var það boð vel nýtt af íbúum eyjarinnar.

Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli þeirra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan