Gagnlegir fundir með ríkisvaldinu

Bæjarstjórn Akureyrar, þingmenn kjördæmisins og fulltrúar Markaðsstofu Norðurlands að fundi loknum.
Bæjarstjórn Akureyrar, þingmenn kjördæmisins og fulltrúar Markaðsstofu Norðurlands að fundi loknum.

Bæjarstjórn Akureyrar átti í gær fundi með ráðherrum annars vegar og þingmönnum kjördæmisins og Markaðsstofu Norðurlands hins vegar.

Ríkisstjórnin varði bróðurparti gærdagsins í fundahöld í Mývatnssveit, bæði ein og sér og svo með sveitarstjórnarfólki á Norðurlandi. „Við fengum þarna tækifæri til þess að tala milliliðalaust við alla ráðherrana í einu um þau málefni sem helst brenna á okkur,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar. „Og þrátt fyrir að tíminn hafi verið naumur þá fannst okkur fundurinn vera árangursríkur og við mæta skilningi af þeirra hálfu," segir Halla Björk.

Áhersla hafi verið lögð á umhverfismál, menningarmál og málefni sem tengjast flugsamgöngum og eru áform um meira samtal milli ríkisins og Akureyrarbæjar um þessa málaflokka.

Bæjarstjórn kallaði einnig eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins og Markaðsstofu Norðurlands í ljósi nýrra frétta af flugmálum. Breska ferðaskrifstofan Super break, sem hefur staðið fyrir flugferðum milli Bretlands og Akureyrar síðustu tvo vetur, er hætt starfsemi og þá ætlar Air Iceland Connect að hætta flugi milli Keflavíkur og Akureyrar.

Halla Björk segir að tilgangurinn hafi fyrst og fremst verið að greina stöðuna og hvetja þingmenn til að þrýsta á áframhaldandi uppbyggingu flugvallarins. Mikilvægt sé að halda fólki við efnið, enda er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fjallað um mikilvægi þess að opna fleiri gáttir inn í landið.

„Í viðræðum sínum við önnur líkleg félög síðustu daga hefur Markaðsstofa Norðurlands orðið vör við að það skiptir miklu að ILS aðflugsbúnaðurinn kemur í gagnið í haust. Þannig að þau skref sem tekin hafa verið eru að nýtast okkur vel núna,“ segir Halla Björk. Hún bindur miklar vonir við að annað fyrirtæki sjái tækifæri í því að koma aftur á beinu flugi milli Akureyrar og Keflavíkur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan