Álfheiður Jónsdóttir 100 ára

Álfheiður og Ásthildur í afmælisboðinu. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Álfheiður og Ásthildur í afmælisboðinu. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Álfheiður Jónsdóttir er 100 ára í dag. Af því tilefni heimsótti Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, hana og færði henni blómvönd frá bæjarstjórn Akureyrar.

Álfheiður fæddist á Akureyri og hefur búið þar alla sína tíð. Árið 1945 eignaðist hún soninn Harald Karlsson sem lést árið 2016. Hún býr nú á Öldrunarheimili Akureyrar og fagnaði afmælinu með afkomendum, ættingjum og vinum í samkomusal Hlíðar fyrr í dag.

Álfheiður var einn af eigendum skóbúðarinnar Lyngdals á Akureyri og starfaði þar um tíma sem og í glerdeildinni í Amaró. Hún var mikil útivistarkona og undi sér best á fjöllum. Hún var mikill skíðagarpur og varð m.a. Íslandsmeistari kvenna í bruni þegar hún keppti fyrir ÍBA á skíðalandsmóti árið 1946.

Fjallamennskan átti ætíð hug Álfheiðar allan og hún var virkur félagi í Ferðafélagi Akureyrar. Í viðtali við Margréti Þóru Þórsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu í gær segir Álfheiður m.a.: "Það er dýrlegt að vera til upp til fjalla, í hreinu og tæru lofti og upplifa friðsældina." Viðtalinu í Morgunblaðinu lýkur hún með þessari stöku:

Ég hef gengið langa leið,
hátt um fjöll og dali.
En það er liðið æviskeið,
nú geng ég bara um sali.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan