Aldrei fleiri Ungskáld

Aldrei hafa fleiri sent inn verk til þátttöku í ritlistakeppninni Ungskáld sem hefur það að markmiði að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.

Alls bárust 100 verk frá 48 höfundum,19 strákum og 29 stúlkum. Til samanburðar má geta þess að í fyrra voru innsend verk 36 frá 16 höfundum, 8 strákum og 8 stúlkum. Um er að ræða afar fjölbreytta flóru ritverka: Ljóð, ör- og smásögur, ljóðabálka og heila barnabók.

Þriggja manna dómnefnd situr nú að störfum og fer yfir verkin. Ætlunin var að halda verðlaunaafhendingu 3. desember nk. en vegna sóttvarnaaðgerða er líklegt að seinka þurfi henni. Það verður nánar auglýst síðar.

Verkefnið Ungskáld hófst árið 2013 á Akureyri og er hið eina sinnar tegundar á landinu. Staðið er fyrir ritlistakeppni þar sem veitt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurfa þó að vera á íslensku.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan