Aldís Kara og Viktor eru íþróttafólk ársins

Viktor Samúelsson og Aldís Kara Bergsdóttir við athöfnina í Hofi í gær.
Viktor Samúelsson og Aldís Kara Bergsdóttir við athöfnina í Hofi í gær.

Íþróttakona Akureyrar 2019 er Aldís Kara Bergsdóttir listhlaupakona úr Skautafélagi Akureyrar og Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar er íþróttakarl Akureyrar 2019. Kjörinu var lýst í Menningarhúsinu Hofi í gær. Þetta var í 41. skipti sem íþróttamaður Akureyrar er heiðraður.

Á árinu 2019 varð Aldís Kara Íslandsmeistari listhlaupi í Junior flokki auk þess að tvíbæta Íslandsmetið í Junior flokki og náði lágmörkum inn á heimsmeistaramót unglinga. Aldís Kara var kjörin íþróttakona Skautafélags Akureyrar árið 2019 og Skautakona ársins 2019 af Skautasambandi Íslands. Í öðru sæti í kjörinu um íþróttakonu ársins 2019 varð Sóley Margrét Jónsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Hulda Elma Eysteinsdóttir blakkona úr Knattspyrnufélagi Akureyrar varð í þriðja sæti. Frjálsíþróttakonan Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í fjórða sæti og í fimmta sæti varð Hulda B. Waage úr Kraftlyftingarfélagi Akureyrar.

Íþróttakarl Akureyrar 2019, Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingarfélagi Akureyrar, hlaut nú nafnbótina í fjórða skipti síðan 2015. Viktor varð Íslandsmeistari karla í kraftlyftingum 2019 auk þess að verða í 4. sæti í -120 kg. flokki á Evrópumótinu í kraftlyftingum á sl. ári. Viktor er jafnframt stigahæsti kraftlyftingamaður Íslands frá upphafi. Í öðru sæti í kjörinu um íþróttakarl ársins 2019 varð Miguel Mateo Castrillo blakmaður úr Knattspyrnufélagi Akureyrar. Utanvegarhlauparinn Þorbergur Ingi Jónson úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í þriðja sæti. Í fjóðra sæti varð íshokkímaðurinn Hafþór Andri Sigrúnarson úr Skautafélagi Akureyrar og í 5. sæti varð Alexander Heiðarsson júdómaður úr Knattspyrnufélagi Akureyrar.

Jóhannes Kárason hlaut heiðursviðurkenningu Frístundaráðs. Jóhannes, sem er gullmerkishafi Skíðasambands Íslands, hefur komið að uppbyggingu og útbreiðslu skíðagönguíþróttarinnar á Akureyri og víðar með ýmsum, miklum og óeigingjönum hætti síðustu 35 ár.

Frístundaráð veitti viðurkenningar vegna 311 Íslandsmeistara til 13 aðildarfélaga Íþróttabandalags Akureyrar á síðasta ári.

Þá veitti Afrekssjóður átta afreksefnum úr röðum aðildarfélaga styrk að alls upphæð 1.600.000 kr.

Alls veitti Afrekssjóður Akureyrarbæjar styrki að upphæð 7.000.000 kr. árið 2019 til íþróttamanna innan aðildarfélaga ÍBA.

 

Á meðfylgjandi mynd er Jóhannes Kárason og Hermann Sigtryggsson heiðursfélagi ÍBA og fv. íþróttafulltrúi Akureyrarbæjar. Til gamans má geta að þeir áttu báðir afmæli í gær, 15. janúar 2019. 

Heiðursviðurkenning 2019

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan