Akureyri á Hringborði Norðurslóða

Ásthildur Sturludóttir og Þorsteinn Gunnarsson á Arctic Circle.
Ásthildur Sturludóttir og Þorsteinn Gunnarsson á Arctic Circle.

Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, sækir Hringborð Norðurslóða eða Arctic Circle í Reykjavík en þar er fjallað um framtíð norðurheimskautsins í breyttri veröld hvar áhrifa loftlagsbreytinga gætir sífellt meira.

Ásthildur hélt í gærkvöldi stutta tölu á sérstakri móttöku þar sem Þorsteinn Gunnarsson fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri var heiðraður fyrir störf sín á sviði Norðurslóðamála. Meðal annarra frummælenda var Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands.

Í kvöld verður haldin opin málstofa um sjálfbæra þróun og stöðu ungmenna á Norðurslóðum en þar talar Ásthildur um þá þróun sem orðið hefur í búsetu yngra fólks í hinum dreifðari byggðum Íslands og hvernig stafrænar lausnir gætu verið lykillinn að því að búseta allra aldurshópa haldist sem víðast.

Á morgun, laugardag, verða síðan haldnar pallborðsumræður um það hvernig sveitarfélög hafa brugðist við þeim vanda sem Covid-19 hefur leitt yfir okkur og hvað megi af þeim viðbrögðum læra. Þessi málstofa er á vegum Samtaka bæjar- og sveitarstjóra á Norðurslóðum, Arctic Mayors' Forum, þar sem Akureyrarbær gegnir formennsku og Ásthildur Sturludóttir stýrir umræðunum.

Arctic Circle er vettvangur alþjóðlegrar samvinnu á sviði Norðurslóðamála, opinn lýðræðislegur vettvangur með þátttöku stjórnvalda, stofnana, fyrirtækja, háskóla, hugsuða, umhverfissamtaka, frumbyggja og annarra sem láta sig framtíð jarðar varða.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan