Akureyrarvaka hófst í gær

Mikill draugagangur var í Samkomuhúsinu í gærkvöldi. Mynd: Helga H. Gunnlaugsdóttir.
Mikill draugagangur var í Samkomuhúsinu í gærkvöldi. Mynd: Helga H. Gunnlaugsdóttir.

Ungir sem aldnir nutu kyrrðarinnar í ljósum prýddum Lystigarðinum á Akureyri þegar Akureyrarvaka var sett í gærkvöldi. Formaður stjórnar Akureyrarstofu, Hilda Jana Gísladóttir, setti vökuna, Þórgnýr Dýrfjörð, deildarstjóri Akureyrarstofu, stiklaði á stóru í dagskrá hátíðarinnar og síðan tóku við listrænir gjörningar um allan garð. Karlakór Akureyrar Geysir flutti meðal annars nokkur lög undir stjórn Hjörleifs Jónssonar en síðan stóðu félagar í kórnum fyrir skemmtilegum samsöng á einni af grasflötum garðsins. Ýmis önnur tónlistaratriði voru hér og þar um garðinn, einnig ljóðalestur og sýning á gömlum verkfærum.

Rafmögnuð stemning var í Samkomuhúsinu þar sem fram fór hrollvekjandi Draugagangur. Bernd Ogrodnik stýrði brúðuleikhúsi í Menntaskólanum á Akureyri og hljómsveitin TUSK með Pálma Gunnarsson í fararbroddi skemmti gestum Menningarhússins Hofs með djössuðum spuna.

Í allan dag halda hátíðarhöld áfram um allan bæ með Vísindasetri í Hofi, opnun Listasafnsins eftir mikla stækkun og endurbætur, og ótal öðrum uppákomum. Hátíðinni lýkur síðan á stórtónleikum í Listagilinu sem hefjast kl. 21. í kvöld en þar koma fram Salka Sól, Svala, Magni, Jónas Sig, Birkir Blær og hljómsveitin Vaðlaheiðin. Undir lok tónleikanna hefst síðan Friðarvaka í kirkjutröppunum þar sem tendruð verða þúsndir kerta í þágu friðar og samkenndar manna á meðal.

Dagskráin er öll á www.akureyrarvaka.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan