Akureyrarbær greiðir fyrir námsgögn grunnskólanemenda

Sumar í Kjarnaskógi. Mynd: Auðunn Níelsson.
Sumar í Kjarnaskógi. Mynd: Auðunn Níelsson.

Akureyrarbær er eitt af þeim sveitarfélögum sem greiðir að fullu fyrir námsgögn nemenda á grunnskólastigi næsta vetur. Undir námsgögnin falla meðal annars skriffæri, stílabækur, trélitir, gráðubogar, vasareiknar og ritföng, sem foreldrar og forráðamenn hafa hingað til þurft að bera kostnað af.

Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi fræðsluráðs bæjarins 26. júní sl. og samþykkt í bæjarráði 6. júlí. Kaup á námsgögnum voru boðin út og er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þessa verði um 6,5 milljónir króna.

Akureyrarbær var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem innleiddi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í honum er kveðið á um að öll börn eigi að geta notið grunnmenntunar ókeypis. Þá hafa Barnaheill einnig talað fyrir því að grunnskólaganga barna verði alveg gjaldfrjáls.

„Í þessu felst að nemendum verði útveguð skólagögn þ.e. stílabækur, reikningsbækur, blýanta og tilheyrandi. Foreldrar þurfa áfram að útvega skólatösku, íþróttaföt og sundföt. Foreldrar eru hins vegar hvattir til að nýta ónýttar bækur og ritföng sem liggja inn á heimilum en námsgögnin verða geymd í skólunum og þurfa nemendur að nota sín eigin skriffæri þegar kemur að heimanámi. Þannig náum við að minnka sóun á fjármunum heimila og sveitarfélags enda á skólinn að vera samvinnuverkefni beggja,“ segir Dagbjört Pálsdóttir formaður fræðsluráðs Akureyrarbæjar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan