Aðgerðir til að bæta loftgæði

Unnið er að því hörðum höndum að draga úr svifryksmengun á Akureyri. Aðgerðaáætlun er væntanleg sem tekur meðal annars mið af ábendingum Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. 

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar fjallaði á síðasta fundi um svifryk og var tekin fyrir bókun heilbrigðisnefndar. Þar koma fram tillögur að aðgerðum til að sporna við svifryki sem er lýðheilsuvandamál á Akureyri.

Ýmsar tillögur til skoðunar

Heilbrigðisnefndin leggur til að Akureyrarbær og Vegagerðin noti eingöngu salt/saltpækil til hálkuvarna í vetur samhliða því að átak verði gert í þrifum á götum. Lögð er áhersla á að upplýsa bæjarbúa um mikilvægi þess að velja naglalaus vetrardekk og að fjárfest verði í færanlegum svifryksmæli til þess að fylgjast með mengun víðs vegar bænum.

Umhverfis- og mannvirkjaráð hyggst fylgja þessum ábendingum eftir. Starfsfólk bæjarins, Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirlits vinnur nú að aðgerðaáætlun til þess að lágmarka svifryk og verður hún lögð fyrir á næsta fundi ráðsins.

Skiptir máli að rykbinda götur

Nokkur umræða hefur að undanförnu skapast um hálkuvarnir á Akureyri. Skiptar skoðanir eru um notkun á salti, eins og reyndar um nagladekk sem þrír af hverjum fjórum bifreiðaeigendum á Akureyri hafa notað undanfarin ár. Rétt er að geta þess að í um 10 ár hefur sandur til hálkuvarna verið blandaður lítillega með salti. Bæjaryfirvöld telja þó að nauðsynlegt sé að grípa til frekari aðgerða til að draga úr svifryki sem hefur ítrekað mælst yfir heilsuverndarmörkum á Akureyri. 

Síðustu daga hafa aðstæður kallað á rykbindingu og hefur sjór meðal annars verið notaður á göturnar. Merkjanlegur munur er á loftgæðum þegar þetta er gert. Sjór var fyrst notaður til rykbindingar í febrúar á þessu ári, en síðustu daga hefur þurft að blanda lítiillega með salti svo sjórinn frjósi ekki á götum og verði hættulegur. 

Hvers vegna er svifryk svona slæmt? 

Svifryk eru smágerðar agnir, undir 10 míkrómetrum, sem svífa um í andrúmsloftinu. Umferð og uppþyrlun göturyks eru meðal helstu uppspretta svifryks í þéttbýli. Áhrif á heilsu fólks eru að miklu leyti háð stærð agnanna. Fínustu agnir svifryks geta auðveldlega komist niður í lungu og stuðlað að og ýft upp öndunarfærasjúkdóma.

Meðal kvilla sem svifryk hefur verið tengt við er astmi, ofnæmi, hjartsláttaróregla og lungnateppa. Aldraðir, börn og þeir sem eru með undurliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmastir. 

Svifryksmengun á Akureyri hefur ítrekað mælst meiri en annars staðar á landinu og því er nauðsynlegt að bregðast við. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan