16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Samkomubrúin er meðal þeirra mannvirkja á Akureyri sem verða lýst upp með appelsínugulum lit í tilef…
Samkomubrúin er meðal þeirra mannvirkja á Akureyri sem verða lýst upp með appelsínugulum lit í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.

Í dag, 25. nóvember, hefst árlegt 16 daga átak á Íslandi og á heimsvísu gegn kynbundnu ofbeldi. Markmiðið er að vekja athygl á þeirri miklu meinsemd og mannréttindabroti sem ofbeldi gegn konum er.

Í tilefni af átakinu verða nokkur mannvirki í bænum lýst upp með appelsínugulum lit, það eru Ráðhúsið, Hof, Listasafnið á Akureyri, Samkomubrúin, Glerárkirkja og Menntaskólinn á Akureyri. Þar að auki stendur Háskólinn á Akureyri fyrir röð hádegisfyrirlestra sem hægt er að kynna sér nánar hér.

Eins og undanfarin ár standa Zontaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbburinn Þórunn Hyrna og Soroptimistaklúbbur Akureyrar fyrir 16 daga átakinu á Akureyri. Vegna Covid-19 þurfti því miður að aflýsa kyndlagöngu og ávörpum við upphaf átaksins.

Úr fréttatilkynningu frá félögunum þremur:
„Bæði konur og karlar verða fyrir kynbundnu ofbeldi en konur og stúlkur eru samt yfirgnæfandi meirihluti þolenda. Kynbundið ofbeldi á sér djúpar rætur í samfélagi og menningu og er ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis. Tölur sýna að í kjölfar Covid-19 er mikil aukning á ofbeldi gegn konum og stúlkum hér á landi sem og annars staðar í heiminum og þá sérstaklega heimilisofbeldi. Einangrun kvenna á heimilum með gerendum og rofið stuðningskerfi er skuggafaraldur Covid-19. Stöndum saman um að rjúfa þagnarmúrinn um kynbundið ofbeldi og stuðlum að vitundarvakningu um að við sem samfélag eigum að hafna því.“

Akureyrarbær vinnur markvisst að því að útrýma kynbundnu ofbeldi með virku samráði og öflugum úrræðum. Sjá nánar hér á heimasíðunni

Á vefsíðu UNWOMEN eru frekari upplýsingar um 16 daga átakið.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan