Svið Akureyrarbæjar

Fjársýslusvið

Geislagötu 9, sími 460 1000, akureyri (hjá) akureyri.is. Afgreiðslutími er virka daga 9-15.
Sviðsstjóri: Dan Jens Brynjarsson

Fjársýslusvið er stoðsvið sem hefur með höndum greiðslu og innheimtu reikninga, auk umsjónar með skuldabréfum sveitarfélagsins. Sviðið annast skráningu reikninga og bókhald, umsjón með starfsáætlana- og fjárhagsáætlanagerð sviða og stofnana bæjarins og eftirfylgni með áætlunum. Fjársýslusvið sér um spár um íbúa- og hagþróun í bænum, ráðgjöf og fræðslu til stjórnenda, stjórnunarúttektir á starfseiningum og útgáfu tölulegra upplýsinga sem varða bæjarfélagið. Þá annast sviðið innkaupastjórn og rekstur tölvukerfa bæjarskrifstofanna og tengingar þeirra við stofnanir bæjarins.

Fræðslu- og lýðheilsusvið

Glerárgötu 26 (1. hæð), sími 460 1000, akureyri (hjá) akureyri.is. Afgreiðslutími er virka daga 9-15.
Sviðsstjóri: Kristín Jóhannesdóttir

Fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar hefur það hlutverk að veita þjónustu sem snýr að uppeldi, menntun, tómstundum og forvörnum. Fræðslu- og lýðheilsusvið ber ábyrgð á starfi leik- og grunnskóla, tónlistarskóla og dagforeldra, forvarna- og tómstundamálum, íþróttamálum, málefnum ungs fólks, félagsstarfi eldri borgara, félagslegri liðveislu. Fræðslu- og lýðheilsusvið framkvæmir og stjórnar í umboði fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar, tekur á móti erindum vegna skóla, tómstunda- íþrótta-, og forvarnarmála. 

Mannauðssvið

Geislagötu 9, sími 460 1000, akureyri (hjá) akureyri.is. Afgreiðslutími launadeildar er virka daga 11-15.
Sviðsstjóri: Halla Margrét Tryggvadóttir

Mannauðssvið er stoðsvið sem hefur með höndum launa- og kjaramál ásamt mannauðsmálum.  

Umhverfis- og mannvirkjasvið

Geislagötu 9, sími 460 1000, umsa (hjá) akureyri.is. Afgreiðslutími er virka daga 9-15.
Sviðsstjóri: Guðríður Friðriksdóttir

Sviðið hefur umsjón með öllum fasteignum í eigu bæjarins. Helstu verkefni þess eru nýframkvæmdir, kaup og sala eigna, viðhald eigna og útleiga þeirra. Einnig dagleg stjórnun framkvæmda bæjarins. Undir það fellur hönnun og mælingar, gerð og viðhald gatna og gangstétta, gatnalýsing, sorphirða, garðar og opin svæði, og önnur umhverfis- og loftlagsmál.

Velferðarsvið

Glerárgötu 26 (2. og 3. hæð), sími 460 1000, velferdarsvid (hjá) akureyri.is. Afgreiðslutími er  virka daga kl. 9-15.
Sviðsstjóri: Karólína Gunnarsdóttir

Velferðarsvið veitir þjónustu skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, barnaverndarlögum og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.  Tekið er á móti og unnið úr umsóknum um fjárhagsaðstoð, veitt félagsleg ráðgjöf og unnið að því að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Úrræðum er beitt til verndar einstökum börnum þegar þess er þörf og í þeim tilgangi að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar. Sérhæfð þjónusta við fatlaða felst í ráðgjöf til fatlaðra og fjölskyldna þeirra m.a. í formi stuðningsviðtala og samhæfingar á þjónustu og fræðslu. Tekið er á móti umsóknum um stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn og mat lagt á umönnunarþörf. Umsjón félagslegra íbúða Akureyrarbæjar falla undir velferðarsvið og þar er tekið á móti umsóknum um íbúðir og um sérstakan húsnæðisstuðning. Einnig sinnir sviðið þjónustu við íbúa nokkurra annarra sveitarfélaga samkvæmt samningum þar að lútandi.

Þjónustu- og skipulagssvið

Geislagötu 9, sími 460 1000, akureyri(hjá) akureyri.is. Síma- og viðtalstími vegna skipulags- og byggingarmála er milli kl. 10 og 12 á virkum dögum. Afgreiðslutími þjónustuvers er 9-15 og skjalasafns 9-15.
Sviðsstjóri: Sumarliði Helgason

Þjónustu- og skipulagssvið er stoðsvið sem ber ábyrgð á þjónustuferlum, stafrænum umbreytingum, skipulags- og byggingarmálum og daglegri stjórnun þeirra málaflokka, skipulagi umferðarmála og landfræðilegs upplýsingarkerfis Akureyrarbæjar (LUKA). Þá ber sviðið einnig ábyrgð á  markaðs- og menningarmálum Akureyrarbæjar s.s. Listasafninu á Akureyri og Amtsbókasafninu, innri og ytri upplýsingum og þjónustu s.s. rafrænni stjórnsýslu, þjónustuveri, skjalastjórnun, þjónustu við kjörna fulltrúa, rekstri og umsjón starfsstöðva og mötuneyta, íbúasamráði og atvinnumálum. 

Síðast uppfært 14. júní 2024