Áfram Hrísey - samstarfsverkefni

Málsnúmer 2022100337

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3783. fundur - 11.10.2022

Lagt fram minnisblað dagsett 10. október um verkefnið Áfram Hrísey sem fékk nýverið styrk í gegnum stefnumarkandi byggðaáætlun ríkisins. Markmið verkefnisins er meðal annars að undirbúa og móta stefnu um markaðssetningu Hríseyjar á íbúamarkaði.

Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista á því athygli að hún teldi sig vanhæfa til að fjalla um þennan lið.

Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarráð og var það samþykkt með öllum samhljóða atkvæðum og vék Ásrún af fundi undir þessum lið.

Bæjarráð felur forstöðumanni atvinnu- og menningarmála að undirbúa drög að samkomulagi við Ferðamálafélag Hríseyjar vegna verkefnisins og leggja fyrir bæjarráð.

Bæjarráð - 3788. fundur - 17.11.2022

Kynnt drög að samkomulagi við Ferðamálafélag Hríseyjar vegna verkefnisins Áfram Hrísey. Málið var áður á dagskrá bæjarráðs 11. október sl.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir samstarfssamninginn með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og felur bæjarstjóra að undirrita hann fyrir hönd bæjarins og fylgja honum eftir.

Meginmarkmið verkefnisins er að greina stöðu Hríseyjar á íbúamarkaði, móta stefnu um markaðssetningu og vekja með fjölbreyttum leiðum athygli á eyjunni sem góðum búsetu- og atvinnukosti. Akureyrarbær leggur verkefninu til stuðning með vinnu og ráðgjöf vegna markaðsmála og fulltrúa í verkefnisstjórn.