Hesjuvellir - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna skilgreiningar á landskika

Málsnúmer 2021040024

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3722. fundur - 08.04.2021

Lagt fram samþykki tilboðs og drög að afsali vegna kaupa bæjarins á hluta af landi jarðarinnar Hesjuvalla.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs samþykkir framlögð drög að afsali og kaup bæjarins á hluta af landi jarðarinnar Hesjuvalla, kaupverð 25 milljónir króna með þremur atkvæðum gegn atkvæði Hlyns Jóhannssonar M-lista. Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.

Bæjarráð felur bæjarlögmanni að útbúa afsal. Jafnframt felur bæjarráð sviðsstjóra fjársýslusviðs að útbúa viðauka vegna málsins og leggja fyrir bæjarráð.

Gunnar Gíslason D-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista óska bókað:

Um er að ræða landsvæði norður af skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli sem er bæði útivistarsvæði og vatnsverndarsvæði. Á útivistarsvæðinu er hluti gönguskíðabrautar sem er kostnaðarsamt að færa, en leigusamningi hefur verið sagt upp. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja er mun kostnaðarsamara að færa gönguskíðabrautina til en það verð sem sett er á landið. Við teljum einnig mikilvægt að landið sé í eigu Akureyrarbæjar vegna frekari uppbyggingar á svæðinu til útivistar. Í ljósi þessa teljum við að það þjóni hagsmunum Akureyrarbæjar og íbúa best að taka fyrirliggjandi tilboði eigenda Hesjuvalla.

Hlynur Jóhannsson M-lista óskar bókað:

Þegar þetta land sem um ræðir var boðið Norðurorku eða Akureyrarbæ til kaups komust aðilar að samkomulagi um að fá óháðan aðila til að meta landið og ekki bara einn heldur tvo. Þegar verðið kom gekk landeigandi út úr samkomulaginu og setti sinn eigin verðmiða á landið og minnkaði það í leiðinni. Ég tel að bæjarfulltrúar eigi ekki að láta stilla sér upp við vegg með þessum hætti og því síður að þeir eigi að útdeila fjármunum bæjarins með þessum hætti. Ekki hefur verið fullkannað hvort hægt sé að breyta þessari einu gönguskíðaleið sem þarna liggur í gegn og er þessi ákvörðun því tekin á afar veikum grunni.

Skipulagsráð - 356. fundur - 14.04.2021

Erindi dagsett 1. apríl 2021 þar sem Jóhannes Már Jóhannesson fyrir hönd Vallabúsins ehf. óskar eftir að 101,2 ha landspilda innan jarðarinnar Hesjuvalla verði stofnuð og nefnd Hesjuvellir land 3. Meðfylgjandi er hnitsettur uppdráttur sem sýnir afmörkun spildunnar.
Skipulagsráð samþykkir stofnun spildunnar með fyrirvara um minniháttar lagfæringar á gögnum í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs.