Hlíðarfjall - AnnAssist ehf - beiðni um umsögn - rekstrarleyfi

Málsnúmer 2021023211

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3719. fundur - 11.03.2021

Erindi dagsett 24. febrúar 2021 frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra þar sem óskað er umsagnar vegna umsóknar AnnAssist ehf., kt. 580219-0980, um rekstrarleyfi samkvæmt flokki II fyrir veitingastað í Hlíðarfjalli, Akureyri.

Bæjarlögmaður vísaði málinu til bæjarráðs vegna þess að það getur talist stefnumarkandi þar sem óskað er vínveitingaleyfis í tengslum við útivistarsvæði sem Akureyrarbær rekur.

Halla Björk Reynisdóttir bar upp vanhæfi sitt í málinu og var það samþykkt. Hún vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins.

Andri Teitsson L-lista sat fundinn undir þessum lið í stað Höllu Bjarkar Reynisdóttur.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sat fundinn undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs samþykkir að veita jákvæða umsögn vegna umsóknar um vínveitingaleyfi til rekstraraðila veitingasölu í Hlíðarfjalli með eftirfarandi skilyrðum:

1. Leyfi sé bundið samningi við núverandi rekstraraðila sem gildir til 30. apríl 2021.

2. Afgreiðslutími virka daga sé frá kl. 16-19.

Bæjarráð felur bæjarlögmanni að skila inn umsögn.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista situr hjá við afgreiðsluna og leggur fram eftirfarandi bókun:

Ég tel nauðsynlegt að fá umsögn forvarnafulltrúa Akureyrarbæjar um sölu áfengis í Hlíðarfjalli sem og mögulega umgjörð slíkrar sölu áður en ákvörðun sem þessi er tekin.


Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Ég tel sölu áfengis í Hlíðarfjalli ganga harðlega gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar og á engan hátt viðeigandi á þessu svæði þar sem ungt fólk, börn og fjölskyldur hafa hingað til notið útivistar og samveru sem er að mínu mati mikilvægur þáttur í þjónustu við íbúa bæjarins. Þessi ákvörðun samræmist á engan hátt því ákvæði í samstarfssáttmála bæjarstjórnar um að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Vert er að benda á að mikil hætta getur skapast í brekkunum hafi skíðafólk ekki fulla stjórn á hreyfingum sínum. Sé það vilji meirihluta bæjarráðs að leyfa sölu áfengis í Hlíðarfjalli ætti í það minnsta að setja þröngar skorður og aðeins leyfa vínveitingar í veitingasölu og ekki megi afgreiða áfengi í öðum umbúðum en opnum glösum.