Kaupvangsstræti - umsókn um lokun á götum

Málsnúmer 2020010445

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 330. fundur - 29.01.2020

Lagt fram erindi Hlyns Hallssonar, fyrir hönd Listasafnsins á Akureyri, dagsett 21. janúar 2020 þar sem sótt er um leyfi til lokunar fyrir bílaumferð í Kaupvangsstræti að hluta vegna Gildaga, dagana 1. febrúar, 7. mars, 16. maí, 17. október og 5. desember 2020.
Í samþykkt um verklagsreglur vegna tímabundinna lokana gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja er sérstakt ákvæði um lokun Listagilsins vegna listviðburða. Kemur þar fram að heimilt er að vera með allt að fjórar lokanir á tímabilinu maí til september. Í ljósi þessa getur meirihluti skipulagsráðs ekki samþykkt lokun Kaupvangsstrætis í samræmi við fyrirliggjandi erindi, nema vegna Gildags þann 16. maí 2020.


Arnfríður Kjartansdóttir V-lista greiðir atkvæði á móti og óskar bókað að hún vilji samþykkja erindið.


Orri Kristjánsson S-lista óskar að bóka: Það heyrir tæplega til góðra stjórnsýsluhátta að skipulagsráð Akureyrarbæjar fari gegn þeim verklagsreglum sem bæjarfélagið hefur sjálft sett sér er varða götulokanir í Listagilinu, líkt og fyrirspurnin felur í sér. Vert er að benda á að skipulagsráð hafnaði fyrirspurn af sama meiði að hluta á fundi sínum þann 10. apríl á síðasta ári og vísaði við það tilefni til verklagsreglna sem gilda um götulokanir í Listagilinu. Ljóst er, m.v. fyrirspurn, að vilji forsvarsmanna Gildaga stendur til þess að loka fyrir umferð um Listagilið dagspart á meðan á Gildögum stendur og utan þess ramma sem verklagsreglur mæla fyrir um. Verður þó ekki komist að annarri niðurstöðu en að árangursríkara gæti reynst að ná þessum vilja fram á annan hátt en að senda að megninu til sömu fyrirspurn fyrir skipulagsráð og hafnað var að hluta á síðasta ári og á meðan sömu reglur gilda um téðar götulokanir.