Málefni embættismanna í bæjarráði

Málsnúmer 2013100293

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3387. fundur - 31.10.2013

Svar formanns bæjarráðs við eftirfarandi bókun Edwards H. Huijbens V-lista í bæjarráði 17. október sl.:
Edward H. Huijbens V-lista óskar eftir úrskurði formanns bæjarráðs um hvort málefni embættismanna eigi erindi fyrir bæjarráð.
Í 1. og 2. gr. samþykkta fyrir bæjarráð og 22. gr. bæjarmálasamþykktar  kemur fram hlutverk bæjarráðs. Meginverkefni bæjarráðs er fjármálastjórn í umboði bæjarstjórnar, þá leggur bæjarráð drög að árlegri fjárhagsáætlun bæjarsjóðs, stofnana hans og fyrirtækja,  hefur eftirlit með að ársreikningar bæjarsjóðs séu samdir, hefur  eftirlit með fjármálum og leitar leiða til hagræðingar í rekstri ásamt því að meta veitta þjónustu m.t.t. fjármagns sem er til ráðstöfunar. Þá hefur bæjarráð eftirlit með stjórnsýslu bæjarfélagsins.
Málefni sem einstakir embættismenn sinna, koma fyrir bæjarráð, ef þau málefni varða framangreint hlutverk bæjarráðs.
Bæjarstjórn hefur falið fastanefndum fullnaðarafgreiðslu mála og á sama hátt hafa nefndir falið stjórnendum fullnaðarafgreiðslu mála á verksviði þeirra. Stjórnendur gera viðkomandi nefnd reglulega grein fyrir afgreiðslu slíkra mála.

Að því leytinu til geta málefni einstakra embættismanna ekki komið fyrir bæjarráð, en hins vegar geta málefni á starfssviði embættismanns farið fyrir þá nefnd sem hann sækir umboð sitt til.

Þá er vert að minnast 3. gr. reglna um ábyrgðarmörk og starfshætti kjörinna fulltrúa, en hlutverk kjörinna fulltrúa er að móta stefnu fyrir starfsemi bæjar og einstakra deilda og stofnana bæjarfélagsins, m.a. með gerð starfs- og fjárhagsáætlana, setja starfsemi bæjarins reglur og gjaldskrár og ákveða stjórnskipan sveitarfélagsins.
Samkvæmt 5. gr. reglna um ábyrgðarmörk eru bæjarstjóri og embættismenn tengiliðir kjörinna fulltrúa við daglega starfsemi og bera ábyrgð á að hún sé samkvæmt stefnu og ákvörðunum í viðkomandi málaflokki. Þannig hlutast kjörnir fulltrúar og nefndarmenn aðeins til um framkvæmd stefnu með samþykktum í bæjarstjórn og á nefndafundum en hafa sem einstaklingar ekki boðvald yfir starfsmönnum bæjarins. Skýrt dæmi um það eru starfsmannamál, sem eru á ábyrgð hvers og eins stjórnanda.

Málefni embættismanna eru því samkvæmt mínum skilningi ekki mál bæjarráðs, þau eiga heima hjá þeim og þeirra yfirmönnum. Venjulegur starfsmaður rekur sín mál gagnvart sínum yfirmanni; deildarstjóra/embættismanni, embættismaður gagnvart bæjarstjóra sem er yfirmaður bæjarins, bæjarstjóri gagnvart bæjarstjórn sem réði hann.