Daggæsla í heimahúsum 2010

Málsnúmer 2010090023

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 17. fundur - 06.09.2010

Á fundinum var gerð grein fyrir stöðu mála í daggæslu á Akureyri. Daggæsluráðgjafi, Guðrún S. Kristinsdóttir og leikskólaráðgjafi, Sesselja Sigurðardóttir, mættu á fundinn og gerðu grein fyrir þjónustunni, eftirlitinu, meðferð ágreiningsmála og kostnaði.

Skólanefnd þakkar góða yfirferð.

Skólanefnd - 23. fundur - 11.10.2010

Á fundinn mætti Trausti Þorsteinsson lektor við HA og gerði grein fyrir niðurstöðum könnunar meðal foreldra um þjónustu dagforeldra sem gerð var sl. vor. Foreldrum 171 barns var boðið að taka þátt í könnuninni. 124 svöruðu spurningalista eða 74,5%.
Helstu niðurstöður eru:
Almennt segjast foreldrar ánægðir með þjónustu dagforeldris. Það sem sérstaka ánægju vekur meðal foreldra er framkoma dagforeldris, hvernig tekið er á móti barninu að morgni svo og samskipti dagforeldris við foreldra og upplýsingamiðlun.
Mun algengara er nú að foreldrar sæki upplýsingar um dagforeldri til skóladeildar eða á vefsíðu Akureyrarbæjar en fram kom í sambærilegri könnun árið 2009. Rétt um helmingur foreldra segjast hafa sótt upplýsingar á þessa staði og flestir telja upplýsingarnar ítarlegar.
Viðmót og persónuleiki dagforeldris virðist ráða mestu við val foreldra á daggæslu fyrir börn sín.
Flestir foreldrar kanna hvort dagforeldri hafi gilt starfsleyfi, gera skriflegan samning og halda eftir afriti af honum.
Foreldrar segja að dagforeldri leiðbeini sér og kynni reglur og samþykktir er lúta að daggæslu í heimahúsi. Fleiri foreldrar nú sækja þessar upplýsingar á heimasíðu Akureyrarbæjar en árið 2009.
Nánast allir foreldrar er þátt tóku í könnuninni telja að líðan barns þess í daggæslu sé mjög góð og almennt virðast foreldrar vera ánægðir með það fæði sem börnunum stendur til boða.
Þótt flestir foreldrar segist sammála þeirri fullyrðingu að forföll dagforeldris séu ekki íþyngjandi fyrir þá má lesa úr niðurstöðum að vandi getur skapast hjá foreldrum þessa vegna.
Lítill hópur foreldra kvartar yfir vistunartíma hjá dagforeldrum og vill að hann sé samræmdur við opnunartíma leikskóla bæjarins.
Niðurstöðurnar í heild má nálgast á heimasíðu skóladeildar skoladeild.akureyri.is

Skólanefnd þakkar Trausta Þorsteinssyni fyrir kynninguna og lýsir ánægju sinni með almenna ánægju foreldra með þjónustu dagforeldra á Akureyri.

Skólanefnd - 25. fundur - 15.11.2010

Fyrir fundinn voru lagðar tillögur að breytingum á reglum um niðurgreiðslur á daggæslu í heimahúsum. Þær fela það í sér að niðurgreitt verður fyrir börn frá 9 mánaða aldri frá og með 1. janúar 2011 og foreldrar sem báðir eru atvinnulausir fá frá sama tíma niðurgreiðslur sambærilegar og námsmenn og einstæðir foreldrar.
Í fjárhagsáætlun ársins 2011 var gert ráð fyrir þessum breytingum.

Skólanefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu fyrir sitt leyti, með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum.