Skýrsla bæjarstjóra 5/5-18/5/2021

Nýr menningarsamningur undirritaður. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásthild…
Nýr menningarsamningur undirritaður. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 18. maí 2021.

Að venju stikla ég á stóru í því sem á daga mína hefur drifið í starfi bæjarstjóra frá síðasta fundi bæjarstjórnar Akureyrar og kennir þar ýmissa grasa.

Þar er fyrst að nefna að miðvikudaginn 5. maí sat ég ársfund Lífeyrissjóðsins Stapa og fimmtudaginn 6. maí átti ég ánægjulega stund með starfsfólki á samfélagssviði þar sem við kvöddum hana Beggu okkar, Bergljótu Jónasdóttur forstöðumann tómstundamála eftir 27 ára gæfuríkt starf hjá sveitarfélaginu.

Síðustu vikur hef ég setið nokkra samráðsfundi Samtaka bæjar- og sveitarstjóra á Norðurslóðum – Arctic Mayors' Forum – þar sem við Akureyringar höfum gegnt formennsku frá stofnun eða frá því í október 2019. Þessir fundir voru til undirbúnings stórum fundi sem fram fór mánudaginn 10. maí með fulltrúum allra þeirra ríkja og héraða sem aðild eiga að samtökunum. Þar var samþykkt samhljóða hvatning til Norðurskautsráðsins (The Arctic Council) um að hafa nánara samráð við kjörna fulltrúa fólksins sem byggir Norðurslóðir um framtíð og þróun mála á þessu svæði. „Ekkert um okkur, án okkar," eins og segir í kjörorðum Arctic Mayors Forum.

Þriðjudaginn 11. maí var undirritaður samningur Akureyrarbæjar við félagasamtökin Súlur Vertical um stuðning sveitarfélagsins við fjallahlaupið Súlur Vertical árið 2021. Þar er kominn vaxtarsproti dugmikilla einstaklinga sem ég trúi að eigi eftir að blómgast og springa út á komandi árum.

Miðvikudagurinn 12. maí var viðburðaríkur í meira lagi en hann hófst með málþingi um áhrif og stöðu fjölmiðla í hinum dreifðu byggðum landsins þar sem einn frummælenda var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Landshlutasamtök sveitarfélaganna og þá sérstaklega SSNE og formaður stjórnar þess, Hilda Jana Gísladóttir, eiga skilið sérstakar þakkir fyrir þetta ágæta framtak.

Eftir hádegið undirrituðum við Lilja nýjan menningarmálasamning ráðuneytisins og Akureyrarbæjar sem felur í sér 15% hækkun framlags ríkisins frá fyrri samningi.

Og síðdegis þann sama dag fór ég upp í háskóla þar sem Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, og Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, voru heiðraðir fyrir frumkvöðlastarf í þágu Norðurslóða og sinn þátt í að gera Akureyri að miðstöð Norðurslóðastarfs á Íslandi.

Þennan sama dag tók ég einnig þátt í fundi verkefnishóps um uppbyggingu Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni – en þar er á ferðinni mikilvæg hugmynd sem smám saman er að mótast betur og verður vonandi innan tíðar að góðum veruleika.