Skýrsla bæjarstjóra 22/9-5/10/2021

Miðgarðakirkja í Grímsey. Mynd: Friðþjófur Helgason.
Miðgarðakirkja í Grímsey. Mynd: Friðþjófur Helgason.

Tíminn flýgur áfram og sífellt meiri þungi færist nú í undirbúning stjórnsýslubreytinga hjá sveitarfélaginu þar sem að mörgu er að hyggja og stuttur en þó nægur tími til stefnu. Fundir með sviðsstjórum og öðrum sem að málinu koma hafa því verið þónokkuð margir síðustu vikurnar og verður svo áfram.

Einnig hefur bæjarráð fundað stíft um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar og farið gaumgæfilega yfir málin með sviðsstjórum og öðrum þeim sem hafa með fjárútlát vegna einstakra málaflokka að gera.

Hörmulegur atburður átti sér stað þriðjudagskvöldið 21. september þegar Miðgarðakirkja í Grímsey brann til grunna. Daginn eftir flugum við Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, út í Grímsey, til að sýna Grímseyingum samhug á mikilli raunastund. Það var sannarlega mikið áfall fyrir sveitunga okkar í Grímsey að svona skyldi fara.

Fimmtudaginn 23. september sat ég ársfund Heilbrigðisstofnunar Norðurlands sem haldinn var hér í Menningarhúsinu Hofi.

Daginn eftir áttum við Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, fund með sendiherra Rússlands á Íslandi um norðurslóðamál.

Þriðjudaginn 28. september sat ég fjarfund Sambands íslenskra sveitarfélaga um stöðuna í innleiðingu betri vinnutíma í vaktavinnu, og þann sama dag var haldinn bæjarstjórnarfundur unga fólksins þar sem fulltrúar okkar í Ungmennaráði fluttu sitt mál af festu, yfirvegun og innsæi. Frammistaða unga fólksins var til fyrirmyndar eins og við var að búast.

Miðvikudaginn 29. september sat ég vefráðstefnu um stafræna umbreytingu í starfsemi sveitarfélaga þar sem flutt voru mörg ákaflega fróðleg erindi... því næst var fundað um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar með fjársýslusviði og loks kom hverfisnefnd Hríseyjar í heimsókn í Ráðhúsið til skrafs og ráðagerða.

Föstudaginn 1. október var haldið upp á 40 ára starfsafmæli Guðbjargar Sigurðardóttur hjá Akureyrarbæ og henni þakkað fyrir trúmennsku og tryggð við sveitarfélagið.

Aukaþing SSNE var haldið rafrænt þann sama dag – og í gær, mánudaginn 4. október, átti ég, ásamt sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs, fjarfund með fulltrúum Sjálfsbjargar þar sem rædd voru aðgengismál hreyfihamlaðra og fatlaðra að byggingum hér í bæ.

Loks vil ég nefna að Arctic Circle ráðstefnan verður haldin í Reykjavík í næstu viku og þar hafa samtök bæjar- og sveitarstjóra á norðurslóðum gert sig gildandi. Arctic Mayors Forum verður með málstofu um það sem læra má af viðbrögðum okkar við Covid-19 faraldrinum – og sem formaður samtakanna og bæjarstjóri á Akureyri ég flyt erindi á annarri málstofu þar sem fjallað verður um framtíð unga fólksins á norðurslóðum.