Skýrsla bæjarstjóra 19/2/2020 – 3/3/2020.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi.

Flutt á fundi bæjarstjórnar í Hofi  3. mars 2020.

19. febrúar: Sótti fund í Reykjavík í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu ásamt Hildu Jönu Gísladóttur bæjarfulltrúa, þar sem við hittum Hermann Sæmundsson skrifstofustjóra og Sigtrygg Magnason aðstoðarmann Sigurðar Inga samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra og var umræðuefnið Akureyrarbær sem vaxtarsvæði og næstu skref í þeirri vinnu.

20. febrúar: Tók á móti Þór G. Þórarinssyni og Þór Haukssyni Reykdal frá Félagsmálaráðuneytinu þar sem rætt var um búsetumál fatlaðra og hlutverk ríkisins í þeim efnum. Skrifað var undir um samning um öryggisvistun milli Akureyrarbæjar og félagsmálaráðuneytisins.

20. febrúar: Átti símaviðtal við Hjálm Hjálmsson ráðgjafa hjá Capacent vegna verkefnis um skipulag stjórnsýslu loftlagsmála á Íslandi.

21. febrúar: Fór á rúntinn um Akureyrarbæ með Karólínu Gunnarsdóttur sviðsstjóra búsetusviðs til að fá enn betri yfirsýn yfir búsetuúrræðin sem rekin eru af sveitarfélaginu og einhverju leyti ríkinu.

21. febrúar: Heimsótti í fyrsta skipti Davíðshús þar sem undirritaður var nýr rekstrarsamningur við Minjasafnið á Akureyri um rekstur á Nonnahúsi og Davíðshúsi og undirritaði Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins samninginn ásamt undirritaðri.

21. febrúar: Átti símaviðtal við dr. Anitu Parlow sem er sérfræðingur í norðurslóðamálum og ræddum við um sameiginleg málefni sveitarfélaga á norðurslóðum.

26. febrúar: Sat fjarfund með allsherjar- og menntamálanefnd þar sem til umfjöllunar var tillaga til þingsályktunar um Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi. Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi sótti líka fundinn sunnan heiða og einnig tók þátt Embla Eir Oddsdóttir forstöðumaður Norðurslóðarnetsins.

26. febrúar: Fór til Hríseyjar ásamt sviðsstjórum samfélagssviðs, umhverfis- og mannvirkjasviðs og fræðslusvið og var tilgangurinn að heimsækja stofnanir bæjarins og fylgja eftir málum sem rædd voru fyrir skömmu á íbúafundi með hverfisnefnd Hríseyjar.

27. febrúar: Sat fund með Sóttvarnarlækni, Almannavörnum og stjórn Hafnarsamlagsins þar sem farið var yfir ýmsa þætti er snúa að viðbragðsáætlun vegna COVID-19 veirunnar.

27. febrúar: Fékk heimsókn frá Lionsmönnum sem eru að undirbúa landsþing Lions árið 2021.

29. febrúar: Mætti með fjölskyldunni á síðasta leik íslenska kvennalandsliðsins í íshokký í Skautahöllinni, þar sem þær léku á móti Úkraínu og stóðu í lokin uppi í öðru sæti í keppninni. Frábær árangur og ég vil óska þeim öllum innilega til hamingju.

2. mars: Tók þátt í fjarfundi með tveimur háskólanemum sem eru að vinna lokaverkefni um ferðaþjónustuna í sveitarfélaginu.

2. mars: Símafundur með Almannavarnarnefnd vegna COVID-19 veirunnar. Slíkir fundir eru nú haldnir reglulega.

3. mars: Fundur með sviðsstjórum eins og venjan er á þriðjudögum, þar sem farið var yfir viðbrögð og áætlanir vegna COVID-19 veirunnar og á fundinn kom einnig Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri sem er fulltrúi sveitarfélagsins í aðgerðarstjórn.