Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Akureyri

Brynja Karítas Thoroddsen, sigurvegari Stóru upplestrarkeppninnar 2019, og Ingibjörg Einarsdóttir, f…
Brynja Karítas Thoroddsen, sigurvegari Stóru upplestrarkeppninnar 2019, og Ingibjörg Einarsdóttir, formaður dómnefndar. Mynd: Þórarinn Torfason, kennari í Oddeyrarskóla.

Kæru nemendur, kennarar og foreldrar.

Nú er um það bil að hefjast ein sú fallegasta og áheyrilegasta keppni sem bæjarstjóra býðst að sækja í sínu starfi. Hvað er fallegra en vandaður upplestur þar sem auðheyrt er hvernig nemandinn leggur sig fram við að flytja textann skýrt og greinilega og með mátulegri tilfinningu. Hér munu eftir því sem ég kemst næst alls 15 nemendur spreyta sig og það er afar ánægjulegt að meðal þeirra er nemandi í Hríseyjarskóla. Gaman væri ef skiptingin milli kynja væri jafnari, strákarnir þurfa að sækja í sig veðrið og við þurfum kannski að skoða betur hvernig við getum hvatt þá til dáða.

En aðeins að lestri sem slíkum, sem ég held að við göngum að sem vísum um leið og við erum orðin læs. Allt í einu getur við ekki lengur séð stafi á blaði án þess að vera búin að setja þá saman og mynda orð. Hvers vegna skiptir hann svona miklu máli? Jú, ég held að lestur sé eins og einhverskonar töfralykill sem getur opnað fyrir okkur hina ótrúlegustu heima og geima. Í sumum þeirra lifum við og hrærumst í á hverjum degi en svo er líka nýjir og spennandi heimar sem víkka hjá okkur sjóndeildarhringinn.

Hjá mér birtast þessir hefðbundnu heimar og geimar t.d. í því efni sem ég þarf að lesa í vinnunni, þeir birtast í lestri á bókunum um Emmu öfugsnúnu, Nóa og hvalinn og Einar Áskel sem ég les fyrir litlu stelpuna mína og svo í bókum sem ég les eða hlusta á kvöldin.

Lesturinn getur líka tengt saman kynslóðir. Ég les fyrir dóttur mína og við ræðum innihald sögunnar og tengjum það inn á daglegt líf og það sama gerist líka þegar amma hennar og afi lesa fyrir hana.

En lestur er ekki bara lestur, það skiptir máli að við gefum okkur tíma að lesa okkur til ánægjur en sá lestur fer sjaldnast fram með lestri á samfélagsmiðlum. Við megum ekki gleyma að taka okkur bók í hönd og lesa án þess að tékka sífellt á nýjustu færslunum á samfélagsmiðlunum.

Að þessu sögðu vil ég þakka fyrir mig og hlakka til að hlýða á ykkur kæru nemendur sem hér munu stíga á svið. Gangi ykkur öllum vel og megi þið öll eiga bjarta lestrar-framtíð.