Ávarp á Stóru upplestrarkeppninni

Kæru nemendur sjöundu bekkja grunnskólanna á Akureyri, kennarar og aðrir góðir gestir.

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér stuttlega áður en að stóru stundinni kemur. Þið sem hingað eru komin hafið verið valin úr stórum hópi nemenda og ég er þess fullviss að í grunnskólum bæjarins sé svo mikið af hæfileikaríkum nemendur, að valið á milli hafi ekki endilega verið auðvelt.

Það gladdi hjarta mitt að sjá að hér verða á eftir verða flutt ljóð eftir ljóðskáldið Jón úr Vör sem fæddist og ólst upp á Patreksfirði en þangað ber ég miklar tilfinningar eftir að hafa búið þar og starfað sem sveitarstjóri í 7 ár.

Morguninn er svo mildur og
hljóður,
máttvana svali blæs af hafi.
Við unnarsteina er aldan
á skrafi,
-allir bátarnir farnir í róður.

Svona lýsti Jón úr Vör þorpinu sínu með hlýjum orðum. Fallegt og án tilgerðar og ég sé strax fyrir mér hafið og bátana.

Á meðan ljóðskáldið talar um svala í sínu ljóði, er vindurinn viðfangsefnið í bók Birkis Blæs Ingólfssonar, Stormsker-fólkið sem fangaði vindinn.

Sögupersónur í þeirri bók leggja allt kapp á að frelsa vindinn og þar erum við komin á slóðir fantasíunnar. Það er einmitt nauðsynlegt að fara bil beggja. Hafa lífið blöndu af raunsæi og fantasíu, því það hjálpar okkur við að vera óhrædd við að eiga stóra drauma, langanir og trúna á það, að draumar geti ræst.
Í keppni sem þessari leggjum við að einhverju leyti grunn að framtíðinni. Hér þurfum við að leggja okkur fram, sýna metnað og skilning á því sem við lesum og færum fram fyrir fullum sal af fólki. En þið þurfið ekki að vera stressuð, því að þeir sem eru hér samankomnir til að fylgjast með, eru ykkur vinveitt og þið getið leitað út í sal að styrk, því við viljum að öllum keppendum gangi vel og að þeir gangi hér á eftir stoltir frá púltinu eftir flutninginn í sætin sín.

Í þessari keppni líkt og öðrum er aðeins einn sem stendur uppi sem sigurvegari í fyrsta sæti og það sem viðkomandi hefur umfram aðra, er ef til vill aðeins meiri æfingar en hjá hinum. En þá skulum við muna, að það er alltaf hægt að gera betur og æfa meira – það er jú þannig, að æfingin skapar meistarann í þessu líkt og öllu öðru í lífinu.

Ég þakka kærlega fyrir mig og segi góða skemmtun.