Veljum samstöðuna

Ástandið sem nú ríkir um allan heim og einnig í samfélagi okkar hér á Akureyri, er öðruvísi en allt sem við höfum áður kynnst. Það sem hefur gerst á síðustu vikum líkist einna helst stríðsástandi með tilheyrandi áfalli fyrir alla sem upplifa hildarleikinn. Vágesturinn Covid-19 hefur lamað heimsbyggðina og sett allt úr skorðum. Þegar þannig háttar er mikilvægast af öllu að fólk kjósi samstöðu umfram sundrungu, sýni mátt sinn og megin.


Störf okkar allra hafa breyst og jafnvel horfið tímabundið. Í starfi mínu hef ég á síðustu dögum og vikum fengið að kynnast ótrúlegri elju og útsjónarsemi fólksins sem vinnur fyrir sveitarfélagið og einnig allra annarra sem hér búa og starfa á ólíkum vettvangi. Ég á varla til nógu sterk orð til að hrósa þessu frábæra fólki. Það er sama hvert litið er.
Sjúkraflutningafólk leggur sig allt fram við að bjarga lífi í fyrsta viðbragði. Starfsfólk skólanna hefur aðlagað starf sitt á undraskömmum tíma að breyttum aðstæðum. Það er störfum fólksins í leik- og grunnskólum að þakka að fólkið sem stendur í framvarðalínunni í baráttunni við veiruna skæðu, heilbrigðisstarfsfólk, lögregla og aðrir, getur sinnt störfum sínum af fullum þunga.


Allir í velferðarþjónustunni sem sinna öldruðum, fötluðum og öllum þeim sem minna mega sín við algjörlega nýjar aðstæður, eiga líka endalausar þakkir skilið. Þar hefur starfseminni verið breytt þannig að fyllsta öryggis sé gætt í hvívetna og reynt er að tryggja að allt gangi snuðrulaust fyrir sig við afar erfið skilyrði. Fólkið sem ryður götur og stíga, sorphirðumennirnir sem ganga fumlaust til verka. Það er sama hvar borið er niður.


Allt samfélagið er ein keðja þar sem hver hlekkur skiptir máli og helsta vörn okkar í þessari baráttu er samstaðan. Að allir leggi sitt af mörkum og snúi bökum saman.
Veljum samstöðuna, sigrumst á óværunni og stöndum uppi sterkari en áður þegar þessu stríði lýkur.
Munum líka hvert um sig að semja viðbragðsáætlun fyrir okkur sjálf og okkar nánustu. Verum viðbúin með áætlun um hvað skuli gera, hvernig skuli ræða málin, hvernig beri að taka á vandanum ef hann knýr dyra hjá okkur og einhver nákominn veikist. Myndum kærleikskeðju með nágrönnum og ættingjum. Hjálpum hvert öðrum og sýnum hvað í okkur býr. Veljum samstöðuna.


Takk fyrir þrautsegjuna, baráttuþrekið og útsjónarsemina.