Skýrsla bæjarstjóra 3.6.2020 – 16.6.2020

Samningur um styrkveitingu ríkisins til rafvæðingar hafna á Akureyri undirritaður. Ásthildur Sturlud…
Samningur um styrkveitingu ríkisins til rafvæðingar hafna á Akureyri undirritaður. Ásthildur Sturludóttir, Pétur Ólafsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson við Oddeyrarbryggju í morgun. Mynd: Ragnar Hólm.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi.

Vikan hefur verið viðburðarík í starfi bæjarstjóra eins og flestar vikur ársins eru.

Miðvikudaginn 3. júní var ég í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 um stöðu mála í Hrísey eftir brunann þar og stöðuna í Grímsey þar sem ástandið er sem kunnugt er einnig erfitt. Ég lýsti þeirri skoðun minni að þrátt fyrir þau áföll sem hafa dunið yfir þá sé hægt að leysa vandann í báðum eyjum og við þurfum einfaldlega að einhenda okkur í það í samstarfi við heimafólk.

Þann sama dag átti ég fjarfund með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga til undirbúnings viðræðna við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið um yfirtöku þeirra á rekstri hjúkrunarheimilanna. Viku síðar var annar fundur sama efnis og fimmtudaginn 11. júní átti ég samtal við forstjóra Sjúkratrygginga Íslands um þetta máefni. Þetta er risastórt verkefni sem krefst mikils undirbúnings og stífra fundarhalda.

3. júní átti ég fund með þingmönnum Norðausturkjördæmis um málefni fiskvinnslunnar í Hrísey og atvinnulífsins þar í kjölfar brunans sem þar varð. Mikilvægt er að njóta stuðnings þingmanna við lausn vandans.

Loks sat ég fund með starfandi lögreglustjóra á Norðurlandi eystra um löggæslumál á Akureyri.

Föstudaginn 5. júní var haldinn fjarfundur með Arctic Mayors Forum og að honum loknum heimsótti ég Slökkvilið Akureyrar og færði starfsfólkinu tertu með morgunkaffinu sem örlítinn þakklætisvott fyrir vel unninn störf í miklu annríki og við erfiðar aðstæður á síðustu vikum og mánuðum.

Að því loknu var fundur með sveitarstjórum á starfssvæði Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og ríkislögreglustjóra um mikilvægi þess að opna kvennaathvarf í umræminu og ætla sveitarfélögin að taka höndum saman svo af því megi verða.

Laugardaginn 6. júní var ég við opnun fimm nýrra sýninga í Listasafninu á Akureyri og flutti þar opnunarávarp.

Mánudaginn 8. júní sat ég fjarfund Sambands íslenskra sveitarfélaga um stafræna þróun sveitarfélaga þar sem kynnt var mat á stöðu þeirra á því sviði. Þetta var áhugaverður fundur og ljóst er að sveitarfélögin eiga gríðarleg tækifæri til sóknar hvað stafræna þróun varðar. Nú þegar eru ýmis kerfi í notkun hjá okkur sem augljóslega mætti nýta miklu mun betur til stafrænna lausna.

9. og 10. júní funduðu sviðsstjórar með mér um fjögurra mánaða rekstaryfirlit sveitarfélagsins þar sem er að ýmsu að hyggja í ljósti stöðunnar vegna Covid-19 og annarra þátta.

Þriðjudaginn 9. júní fór ég út í Hrísey með Höllu Björk Reynisdóttur forseta bæjarstjórnar til fundar við hverfisráð eyjunnar. Það var á Hríseyingum að heyra að þeir séu síður en svo af baki dottnir þrátt fyrir brunann í frystihúsi Hríseyjar Seafood. Það er mikill hugur í fólki og meðal annars talsverðar vonir eru bundnar við ferðasumarið 2020. Í því sambandi má við bæta að frá og með föstudeginum 12. júní hefur verið ókeypis í Hríseyjarferjuna Sævar og var algjört met slegið í gestafjölda um síðustu helgi - fólk kann svo sannarlega að meta ókeypis ferjuferðir.

Fimmtudaginn 11. júní var ég viðstödd þegar umhverfis- og auðlindaráðherra og hafnarstjórinn okkar undirrituðu samning í tengslum við styrkveitingu ráðuneytisins til rafvæðingar hafna á Akureyri að upphæð 43,8 milljónir króna. Að undirritun lokinni skoðuðum við framkvæmdasvæðið á Tangabryggju þar sem unnið er hörðum höndum að því að lengja bryggjuna til suðurs og um leið að koma fyrir raflögnum fyrir fraktskip og minni skemmtiferðaskip. Afar jákvætt framtak sem rennir enn styrkari stöðum undir græna og vistvæna bæinn okkar Akureyri.

Laugardagurinn 12. júní var ánægjulegur í alla stað en þá tók ég þátt í því að vígja risastórt hjarta sem komið hefur verið upp á besta stað í miðbænum og er kjörið til myndatöku fyrir ferðafólk og heimamenn með ýmis helstu kennileiti bæjarins í baksýn. Skömmu síðar þann sama dag lá leiðin á Minjasafnið þar sem ég flutti ávarp við opnun afar forvitnilegrar sýningar um Tónlistarbæinn Akureyri.

Þessa viku og þá síðustu hef ég einnig átt starfsmannaviðtöl við nokkra stjórnendur bæjarins og lýk þeim viðtölum á allra næstu dögum.