Skýrsla bæjarstjóra 16/6-1/9/2020

Frá íbúafundinum í Grímsey.
Frá íbúafundinum í Grímsey.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 1. september 2020.

Sumarið hefur leikið blítt við Akureyringa og stríður straumur ferðafólks verið til bæjarins. Íslendingar voru sannarlega duglegir að ferðast innanlands og má segja að allar helgar sumarsins hafi verið eins og litlar verslunarmannahelgar. Þetta var og er afar mikilvægt fyrir akureyrska efnahagssvæðið.

17. júní hátíðarhöldin voru vel heppnuð þrátt fyrir fjöldatakmarkanir og sóttvarnareglur. Í stað þess að stefna öllum saman á einn blett, voru minni viðburðir haldnir hér og þar um bæinn og gekk það allt eins og í sögu. Ég tók virkan þátt í hátíðarhöldunum og hafði af því mikla ánægju í blíðskaparveðri.

Mánudaginn 29. júní sótti ég, ásamt öðrum, líflegan og gagnlegan íbúafund í Grímsey þar sem var meðal annars rætt um framtíð byggðar í eyjunni, möguleika á orkuskiptum og verkefnið Brothættar byggðir. Við þetta tækifæri var styrkjum að upphæð hátt í 14 milljónir króna úthlutað til 10 verkefna í tengslum við átakið Glæðum Grímsey á vegum Brothættra byggða. Um leið var sagt frá framgangi verkefna sem er ætlað að styðja við búsetu í eyjunni. RÚV hafði beina útsendingu frá Grímsey í kvöldfréttum sínum og átti viðtal við mig um stöðu mála og þær sértæku aðgerðir sem við höfum lagt til við ríkisvaldið að gripið verði til svo styðja megi framtíð byggðar við heimskautsbauginn.

Miðvikudaginn 1. júlí var ný brú yfir vestari kvísl Eyjafjarðarár vígð með pompi og prakt. Brúin hlaut nafnið Vesturbrú. Og þann sama dag vígðum við nýjan þjónustukjarna fyrir fatlað fólk í Klettaborg en þar varð til heimili fyrir sex einstaklinga sem þurfa aðstoð við daglegar athafnir.

Miðvikudaginn 8. júlí sendi bæjarstjórn frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem mótmælt var fyrirhugaðri lokun á fangelsinu á Akureyri án nokkurs samráðs við bæjaryfirvöld eða aðrar sveitarstjórnir á svæðinu. Um miðjan júlí lýsti dómsmálaráðherra því síðan yfir að lokun fangelsisins yrði frestað til 15. september. Við þurfum að halda vöku okkar í þessu máli - aðeins tvær vikur til stefnu og við megum ekki við fækkun starfa á vegum hins opinbera í bænum.

Fimmtudaginn 30. júlí var orðið ljóst að Covid-19 faraldurinn væri að ná sér aftur á strik á Íslandi og var því ákveðið að aflýsa fjölskylduhátíðinni „Einni með öllu" um verslunarmannahelgina og öllum viðburðum sem henni tengdust. Allir sem að málinu komu voru einhuga um þessa ákvörðun og í kvöldfréttum RÚV var ég í beinni útsendingu um málið ásamt Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra. Snemma í ágúst var síðan ákveðið að aflýsa einnig hefðbundinni Akureyrarvöku á afmæli sveitarfélagsins en hún var þó haldin um nýliðna helgi með nýju sniði þar sem upplýstar byggingar og bílabíó vöktu helst athygli og mæltist vel fyrir.

Þriðjudaginn 4. ágúst og fimmtudaginn 6. ágúst voru haldnir stöðufundir með lögreglunni á Akureyri vegna nýrra smita og útbreiðslu Covid-19 á Íslandi.

Ég fundaði með samráðshópi um almannaheill íbúa á Akureyri mánudaginn 17. ágúst og var þá komið töluvert annað hljóð í strokkinn en var á fundi okkar 15. júní þegar flestir töldu að Covid-19 væri á undanhaldi.

Um margra mánaða skeið hafa staðið yfir viðræður við ríkisvaldið um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar en í apríl ákvað bæjarráð að óska ekki eftir framlengingu á rekstrarsamningi heimilanna sem rennur út um næstu áramót. 18. ágúst var síðan tilkynnt að heilbrigðisráðherra hefði ákveðið að fela Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka tímabundið við rekstri ÖA frá næstu áramótum.

Kvennaathvarf á Akureyri var opnað fimmtudaginn 27. ágúst og þar hélt ég stutt ávarp.

Í gær var síðan tekinn upp þráðurinn í undirbúningi viðræðna við mennta- og menningarmálaráðuneytið um nýjan menningarsamning við Akureyrarbæ en það mál hefur tafist vegna veirufaraldursins sem hér hefur geisað.

Gerð fjárhagsáætlunar er nú hafin af fullum þunga og dagskrá okkar allra mun litast mjög af því viðamikla og óvenju snúna verkefni næstu vikurnar.