Málþing um loftlagsmál

Málþing um loftslagsmál haldið af Sambandi íslenskra sveitarfélaga 28. mars 2019.

Hér er linkur á upptöku af erindinu.

Slæðusýningin var með meðfylgjandi texta.

1. Forsíða
Ágæta sveitarstjórnarfólk.
Í raun og veru ættum við ekki að vera hérna. Við ættum ekki að vera með fundi nema mögulega í beinni útsendingu á netinu, þar sem við tölum hvert úr sínum landshluta en ekki halda sérstakan fund. Ef við værum í raun virkilega ábyrg, ættum við að hafa þessi erindi á landsþingi og það ætti að vera í nokkra daga, því það væri líka fjármálaráðstefna og þá myndum við ræða allt sem þyrfti að ræða. Hittast sjaldnar og lengur.
Ég vil nefna minn góða bæjarfulltrúa, Sóleyju Björk Stefánsdóttur, sem flýgur ekki oftar en 2x á ári til útlanda og hefur smitað mig af áhuga á þessum málaflokki. Flugskömm er nýyrði. Mér finnst það dálítið gott. Þegar við horfum til framtíðar þá verður ekki smart að vera að fljúga út og suður á fundi. Við þurfum að huga að þessu og að ferðir okkar mengi sem minnst og í það minnsta að kolefnisjafna ferðalagið.

2. Gerum betur
Við erum öll snortin af þáttunum á RÚV á sunnudagskvöldum, Hvað höfum við gert. Þeir hafa vakið okkur hressilega til vitundar um það á hvaða leið við erum. En efni þessara þátta má ekki gleymast á stuttum tíma og á að vera skylduáhorf allra.
Ég var í vikunni í Brussel á málstofu um umhverfis-og loftslagsmál á Norðurslóðum. Minnti menn auðvitað á, að við ættum ekki að vera að hittast ef við ætlum að taka þessi mál alvarlega, heldur vera í beinni útsendingu á netinu. En þar voru saman komnir sérfræðingar í Norðurslóðamálum, fulltrúar frumbyggja, sveitarstjórnarfólk, frumkvöðlar, aktívistar og diplómatar. Það var mjög ískyggilegt að hlusta á Grænlendinga og frumbyggja ræða um aðstæður sínar og hvernig breytingar á loftslagi hafa áhrif á þeirra lífshætti. Þynning íssins hefur valdið fjölda slysa, tsunami vegna skriðufalla og íbúar eru áhyggjufullir yfir umferð skemmtiferðaskipa. Dýralífið að breytast og atvinnumálin þar með. Það var kallað mjög harkalega eftir fjármagni til orkuskipta á norðurslóðum. Ekki sé til fjármagn til að breyta úr díselrafstöðvum yfir í sólarraforku, þar sem vatnsorku nýtur ekki við. Íbúar óttast breytingar á veðri og frekari umhverfisáhrif. Við þurfum að taka þetta alvarlega.

3. Gerum betur!
Og fyrir norðan tökum við þessi mál alvarlega. Akureyrarbær telur sig gera vel. Umhverfis-og samgöngustefna okkar er góð og eftir henni er unnið. Það er samt sem áður ekki allt eins og blómstrið eina. Það má gera miklu betur. Það er alls staðar þannig. Ég tel t.d. að sveitarfélögin verði að taka úrgangsmálin föstum tökum. Þetta er stórkostlega mikilvægt mál. Ég tel að ekkert drastískt muni gerast í flokkunarmálum, fyrr en íbúar og fyrirtæki þurfa að borga eftir vigt. Tæknin er til. Ég myndi t.d. vilja geta fylgst með því hvernig sorpmagnið þróast hjá mínu heimili og til hvaða aðgerða þarf að grípa, rétt eins og við fylgjumst með rafmagnsnotkun. Þetta er t.d. eitt af stóru verkefnunum í nýsköpun í opinberri þjónustu og stórt mál þegar kemur að loftslagsbreytingum.

Á Akureyri hefur vel tekist til með flokkun á sorpi. Reynsla mín segir að íbúar um allt land kalli eftir stórátaki í þessum efnum. Við erum að nýta sorpstraumana til verkefna í heimabyggð. Íbúum stendur til boða að fá mjög frjósama moltu til að nýta í garða sína, græna trektin er hluti af hverju eldhúsi á Akureyri og með notkun á henni fer mun minna magn af olíu í fráveitukerfi. Svo ekki sé nú minnst á að olían á sér framhaldslíf. Með því að flokka og skila inn afgangsolíu verður til lífdísell.
Við nýtum líka metan frá gömlu ruslahaugunum á strætó. Okkar markmið er að flokka í rot og urða ekkert.
Góður árangur er vegna góðs undirbúnings og mikillar fræðslu. Allir íbúar fengu litlar nettar flokkunarkörfur og fá einnig reglulega fría maíspoka. Góðar og snyrtilegar flokkunarstöðvar í hverfunum er ákveðinn lykill í þessum efnum en þangað skilum við pappa, plasti, áldósum ofl. Annar úrgangur fer á gámasvæðið og þar er notast við klippikort sem voru reyndar erfið í upphafi en nú eru íbúar komnir upp á lag með að nota þau.
Og við erum ánægð með hvernig til hefur tekist.


Við köllum reglulega eftir viðhorfi íbúa til þjónustu okkar. Niðurstöðurnar í lok síðasta árs voru afar ánægjulegar þar sem m.a. kom fram að 86% töldu að sveitarfélagið stæði sig vel í að stuðla að flokkun á sorpi. Ef marka má niðurstöður eftirfarandi fullyrðingar: Ég hugsa mikið um hvað ég get gert til að draga úr þeim áhrifum sem ég hef á loftslagið, þar sem fram kom að 74% íbúa sveitarfélagsins voru sammála fulllyrðingunni, þá erum við öll orðin nokkuð meðvituð.
Akureyrarbær hvetur einnig íbúa til að nýta sér aðra fararmáta en einkabílinn. Það er ókeypis í strætó. Hjóla og göngustígar eru í forgangi við snjómokstur og stígarnir eru ruddir vel. Í haust var Glerárvirkjun tekin í notkun en markmið hennar er að hún geti knúið amk einn rafbíl á hvert heimili á Akureyri. Og rafbílavæðingin er hröð í bænum. Hraðhleðslustöðvar eru víða og það eru stæði fyrir græna bíla víðsvegar um bæinn. Akureyringar eru mjög duglegir við að nýta sér þessar lausnir. Það er í genum íbúanna að hreyfa sig og fara að reglunum.


En við erum að glíma við svifryk. Og það er stundum vandamál og íbúar fylgjast náið með stöðunni á svifryksmælinum sem er á vefnum. Við erum að taka það mál föstum tökum en stóra breytan er veðurfarið á Akureyri. Það er bara svo mikið logn!
Ný aðgerðaráætlun verður kynnt í vor sem miðar að því að taka svifryksvanda föstum tökum. En ég segi:
• Við þrífum og sópum endalaust og áfram en það er ekki nóg.
• Við sprautum sjó á göturnar til að binda rykið en það er ekki nóg.
Stóra málið er að losa okkur við nagladekkin og minnka umferð mengandi ökutækja og fjölga rafbílum. Ég bjó á snjóþungu svæði í Bandaríkjunum. Þar var enginn á nagladekkjum og þau bönnuð. En það var líka mokað mikið og vel. Ég bjó líka vestur á fjörðum. Ég keyrði í tvo vetur ekki á nagladekkjum, yfir fjöll og firnindi. Og það var í lagi.

Kæru ráðstefnugestir!
ég ætla að enda þetta erindi með hvatningu til ykkar! Það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn hvað loftslagsmál varðar og kynslóðirnar verða að tala saman. Þetta er stærsta ógn samtímans sem við öll þurfum að finna til ábyrgðar að vinna gegn. Það er ekki bara ábyrgð stórfyrirtækja, ríkisstjórna, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka. Við berum öll ábyrgð, ekki bara einhver einn. Loftslagsbreytingar kalla á breytta lífshætti og rétt eins og iðnbylting kallar á breytta starfshætti. Tökum höndum saman og ákveðum að breyta samfélaginu.