Ferðafólki í kot vísað

Um þessar mundir eru blikur á lofti í ferðaþjónustu á Íslandi því ljóst er að ferðafólki sem kemur til Íslands mun fækka umtalsvert á næstu mánuðum í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins WOW. Líklega sér ekki högg á vatni á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi þar sem straumur ferðafólks var þegar kominn að þolmörkum. Hins vegar hefur þessi röskun, ekki síst á háannatíma, veruleg áhrif á landsbyggðinni þar sem fyrirtækin eru smærri og viðkvæmari fyrir sveiflum.
Það þarf fleiri gáttir að Íslandi og rökrétt er við núverandi aðstæður í flugmálum að ráðist verði í það án tafar að stækka flugstöðina á Akureyri og stuðla á sama tíma að hagstæðum aðstæðum til millilandaflugs á Akureyri. Það er fljótleg og í raun hagkvæm leið til að milda áhrifin af fyrirsjáanlegum samdrætti í ferðaþjónustunni sem er nú um stundir stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Stuðningur við markaðssetningu á nýjum flugleiðum í gegnum Flugþróunarsjóð og jöfnun eldsneytiskostnaðar skipta þar höfuðmáli. Þar fyrir utan er það óumflýjanlegt öryggisatriði að það séu fleiri en ein leið greiðfær til og frá landinu ef Keflavíkurflugvöllur teppist til að mynda vegna náttúruhamfara.


Ísland er eins og hús þar sem öllum er boðið að troðast inn og út um einar dyr. Húsið er fallegt og reisulegt en það vantar fleiri dyr. Það er að vísu hægt að klöngrast inn um bakdyrnar en þar er dyrastafurinn að hruni kominn, þær eru þröngar og dyrabjölluna vantar. Við kjöraðstæður, þegar bakdyrnar eru opnar til hálfs, kemur í ljós að fólk er mjög hrifið af því að nota þær - kannski til að forðast troðninginn við aðaldyrnar. Fólk vill hafa fleiri gáttir inn í húsið, það vill hafa fleiri leiðir að Íslandi. Þetta sýndi sig berlega í vetur þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð Íslandsferðir í beinu flugi til Akureyrar annan veturinn í röð. Bretarnir þyrptust til bæjarins og gistinóttum á Akureyri fjölgaði verulega. Segja má að þessar heimsóknir Bretanna til Akureyrar hafi gjörbreytt landslaginu hér fyrir norðan og nú ætlar hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel að bjóða flug beint frá Hollandi til Akureyrar vikulega allt næsta sumar.


Nýr aðflugsbúnaður er fagnaðarefni en einn og sér breytir hann ekki öllu af þeirri einföldu ástæðu að „bakdyrnar" eru heldur þröngar. Á Akureyrarflugvelli skapast fljótt ófremdarástand vegna þrengsla. Flugstöðin á Akureyrarflugvelli ber engan veginn komu hátt í 200 ferðamanna sem þurfa að fara í gegnum leit og tollaeftirlit um leið og enn síður ef afgreiða þarf innanlandsflugið á sama tíma. Flugstöðin á Akureyri er auðvitað barn síns tíma, tekin í notkun árið 1961 og stækkuð tvisvar eftir það. Byggingin er aðeins nokkur hundruð fermetrar á meðan flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík er tugþúsundir fermetra. Stöðugt er unnið að stækkun og umbótum í Leifsstöð. Hún er eins og höll en ferðamönnum sem ákveða að fljúga beint til Akureyrar er í kot vísað. Viljum við hafa það þannig?
Ég skora á ríkisstjórnina og Isavia að setja kraft í uppbyggingu Akureyrarflugvallar þannig að opna megi aðra alvöru gátt inn í landið.