Ávarp á jólaformannafundi ÍBA 2019

Formaður UMFÍ, framkvæmdastjóri ÍSÍ, formaður ÍBA, ágæta samkoma.

Það er mér mikill heiður að fá að vera hér í dag og fagna með ykkur. Eftir því sem mér skilst þá eigum við von á mjög eftirsóknarverðri viðurkenningu hér á eftir, sem og kynningu á stórum áfanga í lífi Íþróttabandalags Akureyrar, ef svo má að orði komast. Ég ætla að leyfa mér að nota tækifærið og óska okkur öllum til hamingju með það sem kynnt verður hér á eftir.

En vík nú að öðrum málum sem ég vil nefna. Það hafa ýmis verkefni verið á borði Íþróttabandalags Akureyrar þetta ár sem nú er senn á enda. Fyrir skömmu leit dagsins ljós skýrsla starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar næstu 15 árin. Það er afar mikilvægt að þessi skýrsla hafi litið dagsins ljós þannig að til sé gagn sem unnið verði markvisst eftir. Ég veit að það var mismikil ánægja með þá forgangsröðun, sem þar birtist varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja en það er alveg ljóst að til þess að geta haldið áfram, því öfluga, metnaðarfulla og fjölbreytta íþróttastarfi sem er einkennandi fyrir þetta rúmlega 19 þúsund manna sveitarfélag, þá þurfum við að vinna markvisst og fara afar vel með þá fjármuni sem við höfum á milli handanna. Það verður aldrei hægt að gera allt fyrir alla, það vitum við vel sem erum eldri en tvævetra. Við viljum ekki taka tilviljanakenndar ákvarðanir, heldur þurfum við að vera fagleg og horfa til framtíðar fyrir heildina alla.

Í Íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA til ársins 2022 sem ætlað er að vera leiðarljós og aflvaki fyrir bæjaryfirvöld, forystumenn íþróttahreyfingarinnar og íbúa, kemur m.a. fram að í framtíðinni skuli vera starfrækt færri, stærri og faglegri fjölgreinafélög og þessa vegferð þurfum við að hefja. Þetta tel ég vera afar mikilvægan þátt í því að vinna betur saman og nýta þekkingu mannauðs og fjármuni enn betur.

Á ársþingi ÍBA í apríl á síðasta ári voru fluttir tveir magnaðir fyrirlestrar í tengslum við MeToo umræðuna. Þetta voru þau Magnús Orri Schram og Anna Soffía Víkingsdóttir og var mikil umræða um hvað við getum gert, til þess að vera faglegri við að vinna í slíkum málum þegar þau koma upp. Eitt af því sem við getum og eigum að koma á laggirnar er fagteymi sem tekur á og vinnur með slík mál. Þetta þurfum við að klára. Við verðum að bretta upp ermar og hafa þessa hluti á hreinu. Og þessu tengt þá vil ég nefna mikilvægi þess að við eflum fræðslu til iðkenda, foreldra og þjálfara.

Ein af áherslum íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA snýr að samspili skóla og íþrótta og jafnvægisins þar á milli. Þessu á m.a. að ná með samþættingu skóla og íþrótta. Mig langar til að staldra svolítið við hér. Hvað þýðir þetta? Hversu langt ætlum við að fara til þess að til geti orðið hin fullkomna stundaskrá dagsins fyrir alla iðkendur? Ég tel að við eigum að staldra aðeins við og skoða hvort ekki sé ástæða til að draga úr, að því er oft virðist, mikla æfingamagni hjá yngstu iðkendunum, en þó þannig að við reynum að hafa fjölbreytnina að leiðarljósi. Við þurfum að skoða það mjög alvarlega hvort það sé endilega hið rétta að yngstu iðkendurnir séu á æfingum fjórum til sex sinnum í viku. Það er byrjað að vinna að því hjá Akureyrarbæ að gera hefðbundin „vinnudag" þeirra yngstu aðgengilegri, með því að reyna að stilla æfingum þannig upp, að þær séu sem mest innan rammans frá klukkan 8-16 en þetta tekur auðvitað allt tíma og kostar peninga, þannig að við gerum þetta skref fyrir skref. Við þurfum að líka að skoða þetta í samhengi við byggingar á fleiri íþróttamannvirkjum og spyrja okkur hvað sé raunhæft í þeim efnum til að uppfylla kröfur um þennan æfingafjölda.

Að þessu sögðu vil ég þakka fyrir mig og hlakka til að hlýða á þá ræðumenn sem koma hér á eftir.  

Takk fyrir.