Samþykkt Akureyrarbæjar um verklagsreglur fyrir tímabundnar lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja

  1. gr. Tilgangur og almennar forsendur

Takmörkun á umferð vélknúinna ökutækja eykur öryggi gangandi vegfarenda, á þátt í því að efla bæjarbrag og virkar hvetjandi fyrir íbúa og gesti til að ganga og njóta útiveru. Með því að takmarka umferð vélknúinna ökutækja er opnað fyrir gangandi umferð og möguleika til að nýta miðbæjarsvæðið m.a. fyrir uppákomur sem trekkir að fólk og eykur viðskipti í bænum. Samþykkt þessari er ætlað að tryggja að vel sé að þessum málaflokk staðið og að lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja séu í sátt við íbúa, rekstrar- og hagsmunaaðila. Samþykkt þessi nær til tímabundinna lokana gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja í Akureyrarbæ.

  1. gr. Lokun Göngugötu

Lokun Göngugötu er að lágmarki eftirfarandi:

Júní – fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá kl. 11 til 19

Júlí – alla daga frá kl. 11 til 19

Ágúst – fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá kl. 11 til 19

Lokunarmerki skal vera við Kaupvangsstræti.

  1. gr. Lokun Listagils

Lokun vegna listviðburða í þeim hluta Kaupvangsstrætis sem kallast Listagil er heimiluð frá kl. 14 til 17 frá maí til september. Verður að hámarki gefið leyfi fyrir fjórar lokanir á þessu tímabili. Sækja skal um þær lokanir í apríl fyrir hvert ár. Lokunarskilti skulu vera við neðra horn Kaupvangsstrætis 19 og við efra horn Kaupvangsstrætis 23.

  1. gr. Lokun gatna í miðbæ Akureyrar

Lokanir fyrir umferð í miðbænum á eftirfarandi hátíðum og viðburðum.

  1. a) 17. júní (sjá kort)
  2. b) Verslunarmannahelgi (sjá kort)
  3. c) Akureyrarvöku (sjá kort)
  4. gr. Umsóknir um lokun annarra gatna í Akureyrarbæ

Sækja skal um lokun götu til skipulagsdeildar með minnst viku fyrirvara. Skipulagsfulltrúi eða staðgengill hans afgreiðir umsóknir um lokun húsagatna, safngatna og tengibrauta. Ekki er heimilt að loka stofnbrautum nema með samþykki Vegagerðarinnar og sýslumannsins á Norðurlandi eystra. Í umsókn um lokun skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. a) Nafn tengiliðs/ábyrgðaraðila
  2. b) Nákvæm staðsetning lokunar, merkt inn á kort eða loftmynd.
  3. c) Tilgangur lokunar.
  4. d) Tímasetning lokunar.
  5. e) Útlit og merking lokunar
  6. gr. Útlit og merkingar

Útlit lokana skal vera með eftirfarandi hætti:

  1. a) Lokanir skulu vera með þeim hætti að aðkoma slökkviliðs og sjúkrabíla sé tryggð t.d. með því að hafa eina akgrein hindrunarlausa eða hafa lokunarskilti létt og færanleg á auðveldan hátt.
  2. b) Ljós eða endurskin skal vera á lokuninni.

Merkingar skulu vera með eftirfarandi hætti:

  1. a) Skýr merking og hindrun skal vera á lokunarstað.
  2. b) Tilkynningar um lokanir og mögulegar hjáleiðir skulu vera á næstu gatnamótum og

tengibrautum, þannig staðsett að ökumenn hafi svigrúm til að breyta um akstursleið.

  1. c) Eftir fremsta megni skal ekki vísa ökumönnum á hjáleið sem liggur um íbúðagötur.
  2. gr. Tilkynningar og auglýsingar

Þegar götu er lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja skal tryggja að sem flestir hagsmunaaðilar viti af lokuninni með minnst tveggja daga fyrirvara. Skipulagsfulltrúi eða staðgengill hans ber ábyrgð á tilkynningum um lokanir. Auglýsa skal lokun gatna á heimasíðu Akureyrarbæjar og með öðrum áberandi hætti telji sviðsstjóri skipulagssviðs þess þörf.

  1. gr. Framkvæmd lokunar

Allar lokanir gatna eru í höndum Umhverfismiðstöðvar Akureyrarbæjar í samráði við Vegagerðina þar sem við á. Allar lokanir vegna hátíðarhalda og viðburða í miðbænum eru í höndum Umhverfismiðstöðvar og þjónustu- og skipulagssviðs.

  1. gr. Kostnaður við lokun

Kostnaður við lokun s.s. auglýsingar og vinna við sjálfa lokunina skal greiðast af umsækjanda í samræmi við gjaldskrá Umhverfismiðstöðvar og annars útlagðs kostnaðar.

  1. gr. Undanþágur

Undanþegnar samþykkt þessari eru lokanir vegna framkvæmda eða viðhalds á vegum Akureyrarbæjar eða fyrirtækja á vegum bæjarins. Ökutækjum með P-merki fyrir hreyfihamlaða er heimilt að keyra götur sem merktar eru lokaðar sé þess þörf. Aðkoma inn Göngugötu verður hindrunarlaus frá norðri.

  1. gr. Ágreiningur

Úrskurðarvald um ágreining vegna þessarar samþykktar hefur bæjarstjóri.

  1. gr. Gildistaka

Afgreitt í skipulagsnefnd 27. apríl 2016

Samþykkt af bæjarstjórn 7. júní 2016

 

Endurskoðun afgreidd í skipulagsráði 25.janúar 2017

Endurskoðun samþykkt af bæjarstjórn 7.febrúar 2017

Endurskoðun afgreidd í skipulagsráði 4.maí 2022

Endurskoðun samþykkt af bæjarstjórn 10.maí 2022

Endurskoðun samþykkt af bæjarstjórn 6.júní 2023

 

Fylgiskjöl: Kort

Síðast uppfært 11. júlí 2023