Leikskólamál

Málsnúmer 2023090047

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3532. fundur - 05.09.2023

Rætt um stöðu leikskólamála á Akureyri.

Málshefjandi er Heimir Örn Árnason D-lista. Til máls tóku Gunnar Már Gunnarsson, Hilda Jana Gísladóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Heimir Örn Árnason, Þórhallur Jónsson, Halla Björk Reynisdóttir og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir.
Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Heimir Örn Árnason D-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Þórhallur Jónsson D-lista, Inga Dís Sigurðardóttir M-lista og Andri Teitsson L-lista óska bókað:

Meirihluti bæjarstjórnar lýsir ánægju með stöðu leikskólamála á Akureyri. Það hefur tekist að finna pláss fyrir öll börn í bænum 12 mánaða og eldri núna í haust, með því að koma á fót tveimur nýjum leikskóladeildum í Síðuskóla og Oddeyrarskóla. Nú er verið að undirbúa næsta skref í uppbyggingunni sem verður nýr leikskóli í Hagahverfi. Það er fleira jákvætt að gerast svo sem innleiðing á samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna. Einnig er verið að huga að velferð starfsfólks og barna á leikskólum hvað varðar vinnuumhverfi og vinnuaðstöðu með vinnustyttingu og fleira sem tengist kjarasamningum. Fram eru komnar tillögur um gjaldskrárbreytingar í leikskólum Akureyrarbæjar sem við vonumst til að muni stytta skóladag margra. Gert er ráð fyrir að leikskólagjöld verða tekjutengd bæði fyrir einstaklinga og fólk í sambúð. Einnig er verið að innleiða heimgreiðslur sem við reiknum með að muni gagnast mörgum fjölskyldum með beinum hætti og öðrum með óbeinum hætti, með að skapa meira rými í leikskólunum.



Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Miklar breytingar eru að verða af hálfu meirihluta bæjarstjórnar Akureyrarbæjar á umgjörð leikskólamála í sveitarfélaginu. Þrátt fyrir það virðist því miður lítið sem ekkert samráð vera haft við foreldra og atvinnulíf og lítið tillit tekið til jafnréttissjónarmiða. Líklegt er að þær breytingar sem horft er til nú gagnist síst lágtekjufólki og fólki með lítið bakland, sem er einmitt sá hópur sem sérstaklega mikilvægt er að samfélagið standi vörð um. Þá er ákaflega villandi að tala um að leikskólagjöld hafi lækkað um 8%, enda á sú lækkun aðeins við ef foreldrar nýta ekki samtals 20 skráningardaga að vetrarlagi.