Innleiðing heimsmarkmiðanna hjá sveitarfélögum - könnun

Málsnúmer 2023030812

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3803. fundur - 23.03.2023

Erindi dagsett 15. mars 2023 frá Karli Björnssyni f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem sveitarfélagið er beðið um að svara könnun vegna skýrslu til Sameinuðu þjóðanna varðandi innleiðingu heimsmarkmiðanna. Frestur til að svara könnuninni er til og með 30. mars 2023. Einnig er boðað til kynningarfundar um innleiðingu sveitarfélaga á heimsmarkmiðunum sem haldinn verður 29. mars nk.

Hilda Jana Gísladóttir S- lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista leggja fram eftirfarandi tillögu:

„Akureyrarbær hefji formlega innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Sett verði af stað vinna við kortlagningu, forgagnsröðun, skipulag, innleiðingu, mælingar og miðlun í samræmi við verkfærakistu um heimsmarkmiðin fyrir sveitarfélög frá Stjórnarráði Íslands. Áætlun um innleiðinguna liggi fyrir við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.“


Tillagan var lögð fram til atkvæða, meirihlutinn greiddi atkvæði gegn tillögunni með þremur atkvæðum, minnihlutinn greiddi atkvæði með tillögunni með tveimur atkvæðum. Tillagan var felld.


Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna kosti og galla við að hefja formlega innleiðingu heimsmarkmiðanna og svara könnuninni.

Bæjarstjórn - 3528. fundur - 02.05.2023

Umræða um mögulega innleiðingu Akureyrarbæjar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með áherslu á einstök markmið.

Málshefjandi er Alfa Dröfn Jóhannsdóttir.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Heimir Örn Árnason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Halla Björk Reynisdóttir og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir.
Alfa Dröfn Jóhannsdóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óska að bóka:

Við skorum á meirihlutann að láta innleiðingu heimsmarkmiðanna, hvort heldur í heild eða að hluta, ekki verða að óyfirstíganlegu verkefni, heldur líta á hvað við erum að gera nú þegar, hvað við getum gert og stíga fyrsta skrefið. Hvert einasta skref skiptir máli og getur jafnvel skipt sköpum. Tökum einn bita af fílnum í einu ef það er það sem þarf til að hefjast handa. Við eigum að leiða, ekki fylgja.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Við ítrekum þá afstöðu okkar að Akureyrarbær ætti að hefja formlega innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.


Meirihlutinn óskar bókað:

Meirihlutinn telur að markvisst eigi að vinna að innleiðingu heimsmarkmiðanna og horfa til þess sem nú þegar hefur verið gert hjá sveitarfélaginu. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er ákall um þátttöku allra og undan því skorast Akureyrarbær ekki. Bæjarráð fól bæjarstjóra að kanna kosti og galla þess að hefja formlega innleiðingu og svara könnun sem Samband íslenskra sveitarfélaga hafði óskað eftir að yrði gert þann 23. mars síðastliðinn og er beðið eftir niðurstöðu vinnunnar af hálfu sambandsins. Meirihlutinn telur að jafnt og þétt eigi að tengja heimsmarkmiðin stefnum sveitarfélagsins og leggur til að lýðheilsustefna sem hafin er vinna við hafi heimsmarkmiðin að leiðarljósi, ásamt því að aðgerðaáætlun umhverfis- og loftlagsstefnunnar verði tengd markmiðunum. Þannig getur Akureyrarbær hafið innleiðingu heimsmarkmiðanna og lagt sitt lóð á vogarskálarnar.