Fátækt - sárafátækt á Akureyri

Málsnúmer 2022100252

Vakta málsnúmer

Velferðarráð - 1357. fundur - 11.10.2022

Lagt fram minnisblað dagsett 11. október 2022 um fátækt/sárafátækt.

Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu sat fundinn undir þessum lið og kynnti málið.
Velferðarráð þakkar fyrir kynninguna og ákveður að taka málið upp að nýju eftir umræðu innan annarra nefnda.

Velferðarráð - 1361. fundur - 14.12.2022

Umræður um aðgerðir sem væru til hagsbóta fyrir fátækt fólk á Akureyri.

Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður sat fundinn undir þessum lið.


Elsa María Guðmundsdóttir S-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Það ætti að vera leiðarljós Akureyrarbæjar að vinna markvisst gegn sárafátækt barna. Til þess að ná árangri ætti að gera faglega og fjármagnaða aðgerðaráætlun sem miðar að því að sporna gegn sárafátækt barna og foreldra. Nauðsynlegt er að kortleggja vandann, þannig að aðgerðir nýtist sem best. Í aðgerðaráætlun þurfa að koma fram skýr markmið, aðgerðir, kostnaðargreining og mælanlegir mælikvarðar. Jafnframt þarf að vinna í samræmi við ákvæði um Barnvænt Samfélag og taka tillit til radda barna.

Við gerð aðgerðaráætlunar er mikilvægt að horfa til ýmissa sviða Akureyrarbæjar varðandi t.d. stuðning við fjölskyldur, úrræði, þjónustuveitingu og gjaldskrár. Horfa mætti til þeirrar leiðar sem Reykjavíkurborg fór með sinni greiningarvinnu frá 2020.

Við í Samfylkingunni leggjum sérstaka áherslu á þetta mikilvæga málefni, enda var það á okkar stefnuskrá fyrir síðustu kosningar.


Málfríður Þórðardóttir F-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Sárafátækt er staðreynd á Akureyri, það sést vel á mikilli ásókn til hjálparsamtaka undanfarna mánuði. Flokkur fólksins á Akureyri leggur til að brugðist verði strax við ástandinu á margvíslegan hátt til að draga úr skaðlegum áhrifum sárafátæktar. Hækka þarf fjárhagsaðstoð einstaklinga sem þurfa að leita á náðir sveitarfélagsins og hækka húsnæðisstyrk til lágtekjufólks. Hækka þarf tómstundastyrki til barna verulega. Bjóða ætti öllum börnum fría máltíð í grunnskólum og tryggja þannig eina heita máltíð á dag og loks aðstoða öryrkja við að virkja starfsgetu sína þannig að þeir geti verið í launuðu starfi upp að skerðingarmörkum.

Flokkur fólksins telji nauðsynlegt að kortleggja sárafátækt á Akureyri og því staðreyndirnar eru nú þegar til staðar og grípa þarf til aðgerða strax. Að auki þyrfti að koma fram með langtímaaðgerðaráætlun til að koma í veg fyrir að einstaklingar festist í sárafátækt til lengri tíma. Ábyrgð starfsmanna bæjarins og bæjarfulltrúa er mikil þegar kemur að því að forgangsraða fjármunum sveitarfélagsins en flestir hljóta að vera á þeirri skoðun að velferðarbærinn Akureyri getur ekki setið hjá aðgerðarlaus.